143. löggjafarþing — 4. fundur,  4. okt. 2013.

fjárlög 2014.

1. mál
[12:10]
Horfa

utanríkisráðherra (Gunnar Bragi Sveinsson) (F):

Virðulegi forseti. Hv. þingmaður talar um að við verðum að nýta náttúruauðlindirnar í sátt við umhverfissvæðið. Það að friða, er það ekki líka nýting? Ég veit ekki betur en við séum sammála, ég og hv. þingmaður, um að það sé líka nýting út af fyrir sig. Og fólst það ekki í orðum mínum hér áðan? En ég vil hins vegar segja við hv. þingmann að það er miklu betra að vera á vetrarbrautinni en í svartholinu sem fyrrverandi ríkisstjórn var á leiðinni með okkur öll í. Það er miklu betra að vera þar en í endalausu svartholi.

Mig langar líka að segja við hv. þingmann sem enn og aftur gerir grín að því sem framsóknarmenn sögðu í kosningunum varðandi skuldir heimilanna: Ég held að hv. þingmaður, og þingmenn almennt í stjórnarandstöðunni í dag, ættu að taka þátt í að bæta stöðu þessara heimila, styðja þau góðu mál sem munu koma hér inn í þingið og standa með okkur þegar kemur að því að útfæra þá tillögu okkar sem mun koma fram.