143. löggjafarþing — 4. fundur,  4. okt. 2013.

fjárlög 2014.

1. mál
[15:02]
Horfa

Elín Hirst (S):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. heilbrigðisráðherra kærlega fyrir svörin og hvet til þess að við veltum við hverjum steini í rekstri ríkisins til að peningar skattgreiðenda nýtist sem allra best og að sjúklingarnir fái þá allra bestu þjónustu sem mögulegt er og allir skattgreiðendur fyrir framlag sitt.

Hvað snertir kostnaðarþátttöku sjúklinga í heilbrigðisþjónustu hefur hún aukist hægt og bítandi með hverju árinu. Það má spyrja sig hvar komið sé að þolmörkunum.

Ég heyrði af sjúklingi á göngudeild á dögunum sem þurfti að borga 31 þús. kr. fyrir heimsókn á spítalann þann daginn. Þegar kallað er á sjúkrabíl, yfirleitt til að flytja mjög veikt fólk á sjúkrahús eða bráðamóttöku, kemur reikningurinn í pósti eftir nokkra daga og er upp á nokkrar þúsundir króna. Ég fór til sérfræðilæknis á dögunum og greiddi hátt í 10 þús. kr. fyrir vitjunina, auk blóðprufu. Þetta eru engar smáfjárhæðir.

Ég verð að viðurkenna að mér brá nokkuð í brún þegar ég heyrði að í fjárlagafrumvarpinu væri áætlað að leggja á 1.200 kr. gjald fyrir hvern sólarhring á sjúkrahúsi. Þegar maður skoðar þessi gjaldtökumál í samhengi er lítið réttlæti í því að þeir sem fara á göngudeild spítalanna beri svo mikinn kostnað, oft mjög alvarlega veikt fólk, en að þeir sem eru lagðir inn fái allt frítt.