143. löggjafarþing — 4. fundur,  4. okt. 2013.

fjárlög 2014.

1. mál
[16:37]
Horfa

iðnaðar- og viðskiptaráðherra (Ragnheiður E. Árnadóttir) (S):

Virðulegur forseti. Það er rétt hjá hv. þingmanni, það er óbreytt framlag og óbreytt fyrirkomulag á þeim lið sem snertir endurgreiðslur við kostnað við kvikmyndagerð. Það er eitt af þessum verkefnum sem lögð var áhersla á að viðhalda. Þetta er einfalt reikningsdæmi. Við fáum tekjur af þeirri starfsemi sem kemur hingað til lands mikið til vegna þessara endurgreiðslna. Það er partur af menginu, auðvitað viljum við meina að íslensk náttúra, sérstaða okkar og allt þetta komi þessum kvikmyndum hingað en þetta er klárlega liður í því að draga hingað til lands stór verkefni sem veita fjöldamörgum aðilum atvinnu, skila miklu í þjónustutekjum og skattgreiðslum að öðru leyti. Þetta er klárt reikningsdæmi sem hefur verið sýnt fram á að skili hreint og beint hagnaði í ríkissjóð.

Varðandi Kvikmyndasjóðinn er líka rétt að hann er á forræði annars ráðherra en þar vil ég þó benda á að ef mig ekki misminnir er eins farið og um Tækniþróunarsjóð. Ef við tökum fjárfestingaráætlunina og þá innspýtingu — sem ég ítreka og endurtek að var tekin að láni, við vorum skuldsett fyrir þeim framlögum og síðasta ríkisstjórn tók lán fyrir þeirri innspýtingu og skildi okkur eftir með reikninginn — út fyrir sviga er verið að styrkja og viðhalda Kvikmyndasjóði frá því sem var áður en sú innspýting kom. Með öðrum orðum er aukið við miðað við árið 2012 sem er miklu réttari samanburður vegna þeirrar gagnrýni og annmarka sem á fjárfestingaráætluninni voru.