143. löggjafarþing — 4. fundur,  4. okt. 2013.

fjárlög 2014.

1. mál
[17:47]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Illugi Gunnarsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég hlakka til að eiga orðastað áfram við þingmanninn um þessi mál. Hann er hér að lýsa breytingum sem ég er sammála honum um að munu gerbylta menntakerfinu. Fram undan eru á næstu árum og sennilega áratugum þannig breytingar að í stað þess að við notum nýja tækni inn í menntakerfið munum við byggja menntakerfið á nýrri tækni. Á því er grundvallarmunur. Hann felst meðal annars í því sem hv. þingmaður lýsti áðan og hér sjáum við einungis fyrstu skrefin.

Þetta mun hafa veruleg áhrif á námsframboð. Það mun hafa áhrif á það hvernig við kostum menntakerfið og á hvað við leggjum áherslu. Þetta hefur áhrif á það hvernig við menntum kennaranemana okkar, þá sem eiga að fara að kenna börnunum á öllum skólastigum, hvernig við nýtum þá best tæknina og hvernig við byggjum skólakerfið upp á nýrri tækni. Þetta er mjög spennandi umræðuefni og mjög spennandi framtíð sem við okkur blasir. Hún er alþjóðleg í eðli sínu. Ég veit til þess nú þegar að nemendur við háskólana hér eru um leið að fylgja eftir sambærilegum kúrsum við bestu háskóla í heimi þar sem verið er að kenna sömu atriðin og eru þess vegna að nýta sér ókeypis námsframboð þar. Enn og aftur, þetta er grundvallarbreyting.

Hvað varðar aðgengi að framtíðarsýninni kemur hv. þingmaður hér með ágætar ábendingar. Ég skal játa að ég er kannski svolítið gamaldags með það að ég hef reynt að tjá mig bara sem mest á fundum og reyni að fara sem víðast, hitta sem flesta til að ræða mína sýn, en það er kannski alveg komið að því að taka þetta betur saman. Ég get sagt hv. þingmanni að innan míns ráðuneytis hefur á undanförnum vikum verið unnið að hvítbók sem er þá einhvers konar rit sem hægt er að leggja til grundvallar frekari samræðu um nauðsynlegar breytingar á menntakerfi okkar.

Ég minntist áðan til dæmis á þá staðreynd að við Íslendingar, einir þjóða í OECD, tökum 14 ár í að undirbúa okkar krakka fyrir háskólanám. Það eitt og sér (Forseti hringir.) ætti að vekja marga til umhugsunar.