143. löggjafarþing — 4. fundur,  4. okt. 2013.

fjárlög 2014.

1. mál
[18:47]
Horfa

innanríkisráðherra (Hanna Birna Kristjánsdóttir) (S):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir góð orð um margt sem kemur fram í þessu frumvarpi og tek undir það með hv. þingmanni að þar er mjög margt mjög vel gert. Margt af því er, eins og hv. þingmaður kom inn á, framhald á verkefnum sem voru komin á stað sem við töldum mikilvægan og góðan, eins og nefnt er gagnvart kynferðisofbeldi gagnvart börnum, varðandi aðra hluti er lúta að sóknaráætlun, varðandi löggæsluna. Það var farið í 200 millj. kr. aukaframlag á síðasta ári til að tryggja að hægt væri að fara í ákveðna eflingu þar þannig að við viljum halda því áfram.

Hér verður mönnum eðlilega tíðrætt um ákveðnar breytingar á fjármagni til Vegagerðarinnar. Hins vegar kemur inn kemur ákveðin viðbót í gegnum verkefni í tengslum við Bakka. Ég vil halda því til haga að þar er ákveðin aukning á verkefnum eins og ég fór yfir áðan. Það er ekki afstaða þessarar ríkisstjórnar að gera breytingar á því sem hv. þingmaður fór hér yfir varðandi markaðar tekjur Vegagerðarinnar. Það hefur ekki verið tekin nein slík afstaða eða ákvörðun og varðandi framkvæmdirnar ítreka ég það sem ég sagði áðan, það stendur til og er alveg skýrt að við munum leggja okkur öll fram, og við teljum að við getum það, til að standa við þá samgönguáætlun sem er í gildi. Við treystum okkur til þess að reyna að tryggja það að við vinnum þetta þannig að ekki verði af því mikill skaði, en þó verður að segjast eins og er að miðað við það sem liggur fyrir núna gætum við þurft að ýta á undan okkur einhverjum af smærri framkvæmdum.

Það er stór vinnufundur í næstu viku hjá samgönguráði þar sem farið verður yfir þessi verkefni og stöðuna og áður en það liggur fyrir vil ég ekki fella dóma um einstaka verkefni. Ég get hins vegar fullvissað hv. þingmann um að ég mun fara yfir það vandlega þegar því starfi lýkur.