143. löggjafarþing — 4. fundur,  4. okt. 2013.

fjárlög 2014.

1. mál
[19:47]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Herra forseti. Ég þakka fyrir ágæt svör og það var gott að heyra að NPA-verkefnið haldi áfram því það tel ég vera mjög mikilvægt. Ég undirstrikaði kannski ekki nægilega vel áðan að gott velferðarkerfi og skilvirkt byggir á öflugu atvinnulífi. Það er bara þannig. Þess vegna geta menn ekki einblínt bara á útgjöld til heilbrigðismála eða velferðarmála o.s.frv. nema að horfa jafnframt á þá sem borga, þ.e. skattgreiðendur og hinn vinnandi mann og atvinnulífið.

Mig langar að spyrja aftur um barnabæturnar, þær eru víða. Þær eru í skattkerfinu undir fjármálaráðherra. Þær eru hjá lífeyrissjóðunum sem borga barnabætur. Ég teldi eðlilegt að þetta væri allt fært á einn stað, þ.e. að kerfinu yrði breytt. Það mundi þá heyra undir félagsmálaráðherra því hvar á það annars vegar heima? Eins er með aðrar bætur lífeyrissjóðanna eins og ellilífeyri, makalífeyri og örorkulífeyri. Þetta tengist allt saman við almannatryggingar sem heyra undir félagsmálaráðuneytið. Ég mundi vilja sjá þetta allt á einum stað þannig að menn gætu samræmt kerfið.

En mest um vert er að gefa fólki, þeim sem eru öryrkjar, tækifæri til að vinna. Til þess þarf að breyta því örorkumati sem er í gildi í dag, sem því miður er mjög neikvætt. Örorkumatið lítur eingöngu á vangetu mannsins. Það segir við manninn: Þú getur ekki þetta og þú getur ekki hitt, í staðinn fyrir að líta hinum megin á hlutina og segja: Þú getur víst gert þetta og þú getur víst gert hitt. Það er einmitt það sem fólkið vill. Það vill taka þátt í atvinnulífinu eins og mögulegt er og eins og hver og einn mögulega getur.