145. löggjafarþing — 4. fundur,  11. sept. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[11:05]
Horfa

innanríkisráðherra (Ólöf Nordal) (S):

Virðulegi forseti. Þingheimur þarf ekki að hafa áhyggjur af því að ég muni ekki beita öllum mínum þunga til þess að fá það fjármagn sem þarf í þennan málaflokk. Það er ekki viðunandi fyrir okkur Íslendinga að lenda í því í þeim erfiðu aðstæðum sem nú eru að skapast að ráða ekki nógu vel við þau verkefni sem á okkur hvíla. Ég held að það skipti mjög miklu máli um framhald allrar umræðu um flóttamannamál að við Íslendingar gerum okkur grein fyrir því hvað það þýðir að taka á móti fólki og gera það með sóma. Til þess að það sé hægt þurfum við að sjálfsögðu að verja fé, bæði í þá þætti sem undir þetta ráðuneyti heyra, sem eru að taka á móti hælisleitendum á umsóknarferlistíma, og ekki síður hitt sem ég hygg að hv. þingmaður hafi nefnt í ræðu sinni og snýr reyndar að hæstv. félagsmálaráðherra hvað varðar kvótaflóttamenn. Þar er líka augljóst að töluvert mikið aukið fé mun þurfa miðað við þau áform sem hafa verið uppi að undanförnu.

Allt er þetta rétt að því leyti til að þær áætlanir sem við höfum gert standast augljóslega ekki. Ég nefndi að fjöldinn í ár gæti numið 300 manns og ég held að ekki sé óskynsamlegt að reikna út frá þeirri tölu. Innanríkisráðuneytið er að sjálfsögðu að undirbúa tillögur til að leggja fyrir fjárlaganefnd við vinnslu málsins um það sem við teljum vera rétt á hverjum tíma. Ég vek athygli hv. þingmanna á því að við í ráðuneytinu fylgjumst með þessu máli núna nánast dag frá degi. Við höfum reynt að deila öllum þeim upplýsingum sem við mögulega getum með almenningi til að gera grein fyrir því hvað hér er á ferðinni. Um leið og ég segi að tölurnar séu á iði þurfum við að gera okkur grein fyrir því að við þurfum stöðugt að uppfæra þær. Þetta mál verður væntanlega mjög lifandi á meðan á fjárlagavinnunni stendur (Forseti hringir.) og ég veit að menn skilja það að sjálfsögðu, en það leggur miklar skyldur á þetta ráðuneyti og undir því munum við rísa.