145. löggjafarþing — 4. fundur,  11. sept. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[11:35]
Horfa

innanríkisráðherra (Ólöf Nordal) (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir að nefna fangelsismálin. Það er í vændum frumvarp til laga um fullnustu refsinga þar sem um er að ræða alveg endurskoðaða löggjöf á sviði fullnustu refsinga, sem ég held að sé mikil réttarbót. Í kjölfarið á því frumvarpi geri ég ráð fyrir að í ráðuneytinu muni fara fram frekari vinna á sviði fullnustumála og að farið verði inn í almenn hegningarlög og litið til þess hvort ástæða sé til að bæta við refsiúrræði, og þá litið til þeirra þátta sem hv. þingmaður nefndi. Þetta er mikilvægur málaflokkur. Þar er ég auðvitað að tala um samfélagsþjónustu og slíka þætti.

Það er örlítil aukning til fangelsismála. Við erum náttúrlega að klára fangelsið á Hólmsheiði. Það er ekki rétt sem ég hef aðeins heyrt í umræðunni að þar sé einhver frestun á. Það er örfárra vikna frestun vegna veðurs. Það hefur ekkert að gera með fjármögnun heldur með nagla og hamra. Það mun klárast örfáum vikum seinna og verður opnað og kemst í notkun og mun skipta verulega miklu máli í þessu sambandi.

Aðeins út af neytendamálunum. Það má segja sem svo að neytendamálin hafi verið dálítið á ferð og flugi í Stjórnarráðinu. Það hefur ekki verið málaflokknum til góðs. Hann heyrir að mestu leyti undir innanríkisráðuneytið en hann heyrir líka að hluta til undir fjármálaráðuneytið. Síðan er það mín afstaða að sá málaflokkur eigi heima í viðskiptaráðuneytinu og sé einn af þeim málaflokkum sem passi ekki inn í innanríkisráðuneytið, en ég get haldið svo langa ræðu um málasvið innanríkisráðuneytisins að ég ætla að hlífa hv. þingmönnum við þeirri skoðun minni. Ég held að það sé rétt með neytendamálin að ekki séu frekari fjármunir ætlaðir í þann málaflokk á þessu ári og það krefst þess auðvitað að menn fari vel með það fé sem til þeirra er veitt. Ég vil taka undir það með hv. þingmanni að mikilvægt sé að nýta þau samtök sem eru á markaðnum í neytendamálum og hef verið að velta því fyrir mér hvað við getum gert í ráðuneytinu, líta betur undir það. Það er verkefni sem ég held að skynsamlegt sé fyrir okkur að fara í.