145. löggjafarþing — 4. fundur,  11. sept. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[12:16]
Horfa

Páll Jóhann Pálsson (F):

Virðulegi forseti. Um leið og ég óska okkur öllum til hamingju með hallalaus fjárlög nú þriðja árið í röð vil ég þakka hæstv. innanríkisráðherra fyrir góðar umræður hér í dag. Ég geri mér fulla grein fyrir því að henni er mikill vandi á höndum að forgangsraða í málaflokki sínum því að þar eru mikilvægir innviðir samfélagsins, svo sem löggæsla og samgöngur svo eitthvað sé nefnt. Ég fagna þeirri áherslu sem hæstv. innanríkisráðherra hefur lagt á fjarskiptamálin með þeirri vinnu sem hún hefur lagt í undirbúning ljósleiðaravæðingar dreifbýlis. Þar sem ég hef verið í þeim starfshóp um það mál veit ég að þær 300 milljónir sem voru veittar í málið á þessu ári nýttust vel við undirbúning þess og í ákveðnar hringtengingar.

Ég geri mér hins vegar vonir um að þegar nákvæm verkáætlun liggur fyrir með samnýtingu á öðrum veituframkvæmdum fáist meira fjármagn til verksins en er í þessu frumvarpi. Ég fagna auknu fjármagni til ýmissa liða, svo sem þjóðkirkjunnar, um leið og ég minni á að þar er verið að standa við gerða samninga og bendi á að þessi liður hafði lækkað meira en aðrar stofnanir eftir hrunið.

Ég fagna einnig auknu framlagi til lögregluembætta og sýslumanna, t.d. lögreglustjórans á Suðurnesjum, auknum fjárheimildum til flugstöðvardeildar hans til að standa undir nauðsynlegri landamæragæslu vegna fjölgunar ferðamanna. Hins vegar er Landhelgisgæslan skorin niður. Að vísu er gerð grein fyrir því að hún er að missa einhver verkefni, en við vitum að þegar verkefni eru tekin af svona stofnunum tekur alltaf ákveðinn tíma að komast á annað ról. Ég hefði viljað sjá að Landhelgisgæslan sæti við sama borð og aðrir með aukinni skipaumferð, auknum verkefnum og mikilvægi þeirra, mér finnst vanta að menn geri sér grein fyrir mikilvægi Landhelgisgæslunnar því að mikil umferð er og mikið er um erlend skip að veiðum hér við land. Mig langar því að spyrja hvort ekki sé kominn tími til að bæta aðeins við þennan málaflokk þannig að Landhelgisgæslan geti sinnt betur störfum sínum og gert skipin meira út. Mér finnst þau liggja allt of mikið hérna við bryggju, (Forseti hringir.) þessi dýru skip.