145. löggjafarþing — 4. fundur,  11. sept. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[12:37]
Horfa

innanríkisráðherra (Ólöf Nordal) (S):

Virðulegi forseti. Mig langar að nefna, út af þeim orðum sem hafa fallið hjá hv. þingmanni og eins umræðunni hér í dag um málefni hælisleitenda og flóttafólks og þá stöðu sem uppi er í Evrópu núna, að það er alveg rétt að menn vísa nú til síðari heimsstyrjaldarinnar í þeim vanda sem við horfum upp á núna, að við séum að nálgast þá hrikalegu stöðu sem var í seinni heimsstyrjöldinni þegar Evrópubúar voru fjarri heimilum sínum og lestarstöðvar Evrópu voru allar fullar af flóttafólki. Það var auðvitað hrikalegur vandi. Í því sambandi og vegna þess vanda sem við horfum nú upp á skulum við gera okkur grein fyrir því að þetta mun vara í nokkuð langan tíma. Það er ekki þannig að Íslendingar geti ákveðið að nú sé nóg að taka á móti svo og svo mörgum til Íslands og svo gangi þetta hratt yfir. Það verður ekki þannig. Ég spái því að við séum að horfa á nokkuð mörg ár fram í tímann þar sem við sjáum áfram flóttamannastraum til Evrópu þannig að við skulum gera okkur grein fyrir því að hér verður ekki tjaldað til einnar nætur. Ég held að það sé hyggilegt að við Íslendingar planleggjum okkur dálítið fram í tímann, reynum að hugsa lengra. Ég þori náttúrlega engu um þetta að spá en það kæmi mér ekkert á óvart að við værum að horfa upp á jafnvel tíu ár þar sem þessi vandi herjaði á Evrópu. Þess vegna skiptir svo miklu máli að strax í upphafi setji menn fram raunhæfar áætlanir. Við í innanríkisráðuneytinu lítum að sjálfsögðu til þeirra stofnana sem hv. þingmaður nefndi. Ég tek undir það, landamæravarsla og slíkir hlutir eru gríðarlega mikilvægir. En gerum okkur grein fyrir því, Íslendingar, að þetta er ekki verkefni til eins eða tveggja ára, þetta er áreiðanlega tíu ára verkefni sem við erum að fara hér í. Þetta er þróun í Evrópu sem við sjáum ekki fyrir endann á. Það skulum við hafa í huga þegar við tökum ákvarðanir á Íslandi.