145. löggjafarþing — 4. fundur,  11. sept. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[13:32]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (P):

Forseti. Ég tek því fagnandi ef haldinn verður sérstakur fundur til að fara yfir alþjóðasamvinnu og þá samninga sem við eigum aðild að í utanríkismálanefnd. Ég vona að þegar utanríkismálanefnd kemur saman að nýju verði það gert, ég mun að minnsta kosti halda þeim bolta á lofti þar og skora á hæstv. ráðherra að gera það sama.

Varðandi umhverfismálin og þá samvinnu sem við höfum átt aðild að í tengslum við þau mál þá er það nú samt þannig að ákaflega lítið hefur verið rætt um þau í utanríkismálanefnd. Það er nánast litið á þetta sem umhverfisráðuneytismál eingöngu. Ég velti fyrir mér hvort ekki þurfi samráðsvettvang, á svipaðan hátt og gert hefur verið með stofnun ráðherranefndar, sem vonandi verður jákvæður árangur af, vegna þeirrar krísu sem nú er uppi varðandi flóttamenn frá Sýrlandi. Ég tel nauðsynlegt að búinn sé til samráðsvettvangur þannig að undirbúningur fyrir þessa ráðstefnu sé almennilegur og einhver alvöruumræða verði um hana í þingnefndum, í þinginu og úti í samfélaginu.

Mig langar að spyrja ráðherrann hvort hann hafi kannað hvernig þetta er hjá öðrum þjóðum sem við berum okkur saman við, hvort einhver undirbúningur sé t.d. hafinn í Noregi eða í öðrum löndum sem taka þátt í þessu samstarfi með okkur.