145. löggjafarþing — 4. fundur,  11. sept. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[14:23]
Horfa

umhverfis- og auðlindaráðherra (Sigrún Magnúsdóttir) (F):

Virðulegi forseti. Varðandi opinberu innkaupin mun ég afla mér upplýsinga sem allra fyrst. Ég er ekki með svör á reiðum höndum varðandi þau. Ég tek undir með þingmanninum að eftir að hafa setið, þótt það sé ekki langur tími, í ráðuneytinu öðlast maður enn meiri skilning á því hvað þáttur umhverfis er margslunginn og hve margt getur hjálpað til. Það er alveg sjálfsagt að reyna að afla sér betri upplýsinga um málið sem ég hef því miður ekki tiltækar núna.

Það sem ég hef fengið að heyra þá hefur jákvæðnin þó vaxið hvað varðar hlut landvörslu og tel ég hana í mun betra horfi en áður. Margir hafa verið ánægðir með þá viðbót sem þeir hafa fengið á þessu ári þannig að ég held að því sé nokkuð vel fyrir komið.

Varðandi friðlýsingar er það rétt og við höfum svo sem tekist á um það áður í þessum sal að ekki er nóg að gert og gengur nokkuð hægt. Áherslan hefur um þessar mundir verið lögð á verndar- og stjórnunaráætlanir og að móta þannig framtíðina og stefnuna á náttúruverndarsvæðunum en betur má ef duga skal. Það eru um eða yfir 100 friðlýst svæði sem Umhverfisstofnun hefur á sinni könnu.