145. löggjafarþing — 4. fundur,  11. sept. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[14:31]
Horfa

Elín Hirst (S):

Virðulegi forseti. Ég fagna orðum hæstv. umhverfisráðherra. Ef hann hefur ekki vitað að hann ætti sér talsmann og bandamann í umhverfismálum er hann alla vega hér og hyggst láta til sín taka, enda er hann nefndarmaður í umhverfis- og samgöngunefnd Alþingis. Þar liggja fyrir mikilvæg málefni sem varða okkur á Íslandi eða í litla samhenginu, sem er samt stórt, og það eru ný náttúruverndarlög sem eiga að taka gildi fyrir áramót og vinna við innviðafrumvarpið svokallaða þar sem við verðum náttúrlega að sporna gegn því að landið okkar, sem er að verða svo gríðarlega vinsælt meðal ferðamanna, verði troðið niður og traðkað á því þannig að sjái stórlega á því. Þetta eru afar mikilvæg mál sem standa fyrir dyrum hjá nefndinni og ég vonast svo sannarlega til að um þau takast breið og góð samstaða meðal nefndarmanna.

Mig langar að nota þetta tækifæri vegna þess að ég veit að hvert lóð á vogarskálarnar skiptir máli varðandi loftslagsmálin. Ég tek svo sannarlega undir með ráðherranum að það á eftir að verða stórmál og er orðið stórmál og mun setja svip sinn á stjórnmálalífið á Íslandi í auknum mæli á næstu árum og áratugum. Ég hef ásamt fleirum í smíðum þingsályktunartillögu sem felur ríkisstjórninni að skipa starfshóp til að vinna aðgerðaáætlun til að bregðast við súrnun sjávar á norðurslóðum. Þetta er mjög mikilvægt mál í stóra loftslagssamhenginu og ekki síst fyrir það að við Íslendingar sækjum helstu auðlind okkar í sjóinn.