145. löggjafarþing — 4. fundur,  11. sept. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[17:02]
Horfa

Páll Valur Björnsson (Bf):

Virðulegi forseti. Ég ætla ekki að lengja þessa umræðu en mig langar að nefna eitt af því að ég er mikill áhugamaður um bætta ferðaþjónustu og aðstöðu fyrir ferðamenn og slíkt. Ég tók náttúrlega eftir því á ferðalögum mínum í sumar að víða er pottur brotinn á Íslandi og ekki síst í samgöngumálum. Við heyrðum svo sem fréttirnar af þessu klóakmáli sem tröllreið öllu og segir manni að ýmislegt þarf að gera. Maður hefur fylgst af athygli með því hvernig á að reyna að auka tekjur í verkefnin og hvernig við getum sem best gert það. Ég vil helst af öllu setja aukagjald á alla farþega sem ekki eru með íslenskt ríkisfang, að þeir borguðu það um leið og þeir keyptu sér farmiða til Íslands, en það er kannski útfærsluatriði sem ég hef heyrt hæstv. ráðherra tala um áður.

Það er eitt sem mig langar til að spyrja hæstv. ráðherra um, vegna þess að eitt af fyrstu verkum ríkisstjórnarinnar þegar hún tók við var að draga til baka hækkun á virðisaukaskatti á gistináttagjald, sem átti að fara í 14% úr 7%. Samkvæmt því sem þá var talað um hér í þingsal átti það að skila um 500 milljónum árið 2013 og 1,5 milljörðum árið 2014, svo ég tali nú ekki um núna, það eru hugsanlega um 5 milljarðar sem hafa tapast af því að ríkisstjórnin tók þá ákvörðun að hætta við. Mig langar svo rosalega til að vita hvers vegna í ósköpunum þetta var gert, vegna þess að 90% af þeim sem borga gistináttagjald á Íslandi eru útlendingar.

Mig langar að spyrja ráðherrann hreint út um það: Voru þetta ekki bara mistök? Væri ekki staða Framkvæmdasjóðs ferðamannastaða miklu betri í dag, og værum við ekki búin að fá einmitt það fjármagn til að byggja upp innviði sem svo sannarlega þarf að gera? Þetta var sú spurning sem mig langaði að beina til hæstv. ráðherra.