148. löggjafarþing — 4. fundur,  16. des. 2017.

breyting á ýmsum lögum vegna fjárlaga 2018.

3. mál
[11:10]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég held að ég viti það rétt að þessi bráðabirgðaákvæði voru leidd í lög sem tímabundið úrræði til að bæta kjör þessara hópa á sínum tíma. Það var kannski við þrengri aðstæður í ríkisbúskapnum en við búum við í dag. Svo höfum við mögulega fallið í það far að taka alltaf ákvörðun til eins árs í senn varðandi framlenginguna. En það eru fleiri undirliggjandi þættir, t.d. varðandi þessa víxlverkun, sem þarf að taka til skoðunar. Ég ætla bara að leyfa mér að taka undir það með hv. þingmanni að það er slæmt að við séum í lok hvers árs að framlengja ár eftir ár, eins og ég hef rakið, einstaka bráðabirgðaákvæði. Það á við um þetta eins og önnur úrræði sem við erum að framlengja með þessu frumvarpi. Ég mun taka það til sérstakrar skoðunar hvort ekki sé hægt að komast út úr þessari, hvað eigum við að segja, áráttuhegðun.