148. löggjafarþing — 4. fundur,  16. des. 2017.

dómstólar o.fl.

8. mál
[13:58]
Horfa

dómsmálaráðherra (Sigríður Á. Andersen) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Mér þykir hv. þingmaður taka ansi djúpt í árinni að telja vinnubrögð við stofnun Landsréttar handarbakavinnubrögð. Það hefur verið ákaflega vel að öllum undirbúningi staðið af hálfu margra dómara sem að hafa komið, bæði í Hæstarétti og héraðsdómstólum, auk sérfræðinga, t.d. ráðuneytisins. Ég get ekki sagt annað en að það hafi verið ákaflega vel staðið að því og þrekvirki í rauninni að rétturinn geti tekið til starfa núna 1. janúar eins og áformað var frá upphafi.

Það er auðvitað ekkert óheppilegt og kannski ekki rétt að orða það þannig að hér ríki tvöfalt kerfi við að öll sakamál sem verður áfrýjað eftir áramót fari beint í Landsrétt. Eða að öllum óloknum sakamálum, segi ég, sem eru í Hæstarétti, þau verði flutt í Landsrétt en einkamálunum lokið, ef má kalla það lager af einkamálum um áramótin, í Hæstarétti. Sviðsmyndirnar hefðu getað verið tvær aðrar. Annars vegar sú sem var upphaflega áætluð, að öll mál myndu flytjast yfir á Landsrétt um áramótin, öll einkamál og sakamál sem er ólokið. Það hefði auðvitað leitt til þess að Landsréttur hefði byrjað með gríðarlegan málaþunga en hefði vissulega verið mjög heppilegt fyrir störf Hæstaréttar. Hin sviðsmyndin hefði getað verið að engin mál hefðu flust yfir um áramótin og það hefði þýtt að Landsréttur hefði byrjað með algerlega tómt borð og haft mjög lítið vinnuálag fyrsta hálfa árið. Hvorugt fannst mér koma til greina. Þannig að þarna var farin millileið í mikilli sátt og samstöðu við báða réttina.