154. löggjafarþing — 4. fundur,  15. sept. 2023.

fjárlög 2024.

1. mál
[10:39]
Horfa

Jóhann Páll Jóhannsson (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Aftur hvet ég hv. þingmann til að lesa fjárlagafrumvarp ríkisstjórnarinnar. Það sem ég sagði hér er ekki rangfærslur. Þetta er nánast orðrétt upp úr plagginu. Heildarútgjöld til hjúkrunar- og endurhæfingarþjónustu lækka um þrjá milljarða. Á heilsugæslu, sem hv. þingmaður nefndi, er aðhaldskrafa upp á 320 milljónir. Það er verið að fresta t.d. uppbyggingu á starfssvæði heilsugæslunnar á Akureyri, lækka þar um 650 milljónir. Svona mætti lengi telja. Eins í sjúkrahúsþjónustu, 723 milljóna aðhald. Það þýðir ekki að það sé ekki verið að auka fjármuni til heilbrigðisþjónustu almennt, enda náðust samningar við sérgreinalækna og verið að byggja nýjan spítala þannig að því hélt ég að auðvitað hvergi fram.

Varðandi einkareksturinn þá er það svo sem ekkert nýtt að Samfylkingin er ekki á móti einkarekstri almennt þegar kemur að heilbrigðisþjónustu. Það hins vegar ekkert sérstakt kappsmál hjá Samfylkingunni (Forseti hringir.) að auka við einkarekstur þegar kemur að heilsugæsluþjónustu, eins og hv. þingmaður nefndi. (Forseti hringir.) Oft getur bara farið best á því að það sé einmitt hið opinbera sem rekur það, en það fer svolítið eftir aðstæðum.