154. löggjafarþing — 4. fundur,  15. sept. 2023.

fjárlög 2024.

1. mál
[10:41]
Horfa

Jódís Skúladóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna. Þetta var áhugavert og hér hvetur hv. þingmaður stjórnarliða til að lesa fjárlagafrumvarpið. Við lesum það augljóslega með ólíkum gleraugum og þegar sagt er að verið sé að auka í heilbrigðisþjónustu þá er nú dapurlegt að fara niður í hvern og einn málaflokk. Við vitum það. Þetta er risavaxinn málaflokkur. Það er verið að gera gríðarlega vel, búið að hækka framlög til heilsugæslunnar um 37% með sérstökum átökum. Auðvitað er það þannig að innan hvers málaflokks þarf svo líka að forgangsraða og þá gerist það á milli ára að eitthvað lækkar hér og annað hækkar í staðinn og þannig virkar þetta kerfi.

Í þessum umræðum um fjárlög hef ég haft svolítið gaman af hinni hástemmdu og hugsanlega ótímabæru kosningabaráttu Samfylkingarinnar En mig langar að spyrja hv. þingmann út í veiðigjöld. Ef hann hefur nú lúslesið fjárlagafrumvarpið þá sér hann að þar er hækkun. Það er verið að vinna markvissa og faglega vinnu í matvælaráðuneytinu undir yfirskriftinni auðlindin okkar þar sem verið er að vinna að hækkun veiðigjalda. Mig langar að spyrja hv. þingmann: Hvernig myndi hann gera þetta? Hvernig myndi Samfylkingin fara í þá vegferð að hækka veiðigjöld? Er það bara út frá eigin brjóstviti eða myndu þau hugsanlega gera eins og matvælaráðherra, að taka samtalið við alla aðila, hafa þetta tengt byggðunum í landinu og gera þetta á faglegum og vísindalegum grunni?