154. löggjafarþing — 4. fundur,  15. sept. 2023.

fjárlög 2024.

1. mál
[11:13]
Horfa

Jóhann Friðrik Friðriksson (F) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka þingmanninum fyrir ræðuna. Hún tók nú stóran hluta af henni undir málaflokkinn útlendingamál. Það kemur mér svo sem ekkert á óvart. Við hv. þingmaður áttum gott samstarf í allsherjar- og menntamálanefnd lungann af síðasta þingi og ræddum þennan málaflokk ítarlega. Eins og þingmaðurinn veit þá er ég mikill stuðningsmaður innviðauppbyggingar og ég hjó eftir því í ræðu hennar að hún kastaði því fram sem hugmynd að það væri hægt að leysa um málaflokkinn og setja það fjármagn sem nú er að fara í verndarkerfið í innviðauppbyggingu. Mín spurning snýr að því hvort ég geti fengið kannski nánari skýringar á pælingum þingmannsins. Það liggur fyrir að við erum með verndarkerfi. Það kostar 15 milljarða og hafa útgjöld til þess sannarlega aukist eins og við þekkjum, enda hefur náttúrlega stórlega stækkað sá hópur sem sækir hér um alþjóðlega vernd og við reynum að sinna þeim hópi faglega og vel. Það er svona mín spurning til þingmannsins, hvernig mætti útfæra það og kannski leiða mig inn á réttari brautir vegna þess að það er alltaf ástæða til að gera betur og hagræða, finna fjármagni nýtilega staði í kerfinu. Þannig að gott væri að fá útskýringar þingmannsins á því.