135. löggjafarþing — 4. fundur,  4. okt. 2007.

fjárlög 2008.

1. mál
[14:19]
Hlusta

Guðbjartur Hannesson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka umhyggju hv. þm. Jóns Bjarnasonar fyrir Samfylkingunni og vona að hún endist út árið.

Við höfum ekki kveinkað okkur undan því að hafa þurft að fara í samninga um ýmis mál og eins og ég gat um áðan teljum við að við höfum haft veruleg áhrif nú þegar. Ég nefndi þar samgöngumálin, menntamálin, velferðarmálin. Þess má sjá stað að töluverð breyting hefur orðið við stjórnarskiptin þó að menn geti ávallt bent á einhver einstök atriði sem ekki hafi komist inn í fyrstu fjárlög. Ég held að það sé augljóst fyrir þá sem sjá vilja að Samfylkingin er komin í ríkisstjórn og við það verða verulegar breytingar.

Kosningamál mitt um Hvalfjarðargöngin er mikið baráttumál, eitt af þeim jafnréttismálum sem ég vil gjarnan sjá að verði sett ofarlega á blað. Það fór ekki inn í stjórnarsáttmálann, það er rétt. Aftur á móti hef ég verið í viðræðum við samgönguráðherra um með hvaða hætti hægt er að taka á því máli. Ég mun berjast eindregið gegn því að einhver frekari gjaldtaka verði á þjóðvegunum með þeim hætti sem nú er. Aftur á móti er full ástæða til að ræða tekjustofna í samgöngum almennt og hef ég því beðið með að flytja um þetta sérstakt mál. En ef til þess kemur treysti ég á að hv. þm. Jón Bjarnason verði meðflutningsmaður minn í því að við leggjum niður þetta gjald. Það er óréttlátt og það skiptir landsvæðum. Ég hef bent á ýmsar aðrar leiðir til að ná gjaldi sem nemur þessum milljarði inn í tekjustofna til samgöngumála. En þetta fór ekki inn í stjórnarsáttmálann, til þess hafði ég ekki nægan styrk. En það kemur síðar.