135. löggjafarþing — 4. fundur,  4. okt. 2007.

fjárlög 2008.

1. mál
[14:47]
Hlusta

Valgerður Sverrisdóttir (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég held að hæstv. fjármálaráðherra hefði átt að sleppa þessari ferð sinni í stólinn. Samkvæmt þingsköpum á að ræða mál á breiðum grundvelli við 1. umr. en við 2. umr. á frekar að fara í smáatriði. Það skal ég svo sannarlega gera þegar þar að kemur því ég hef ýmsar athugasemdir við einstaka liði en ég taldi rétt að segja hæstv. ráðherra það fyrir fram að ég ætlaði ekki að koma í þessari 10 mínútna ræðu minni með tillögur um það hvar ætti að draga úr. Ég var með vangaveltur um það hvort hæstv. ráðherra, sem er fulltrúi Sjálfstæðisflokksins og ætti kannski þess vegna ekki að vera mjög áfjáður í það að koma með miklar útgjaldatillögur á sama tíma og hann segir úti í bæ að minnka eigi umsvif ríkisins um fimmtung og það sé létt verk. Væri mjög gaman að heyra það í seinna andsvari hans hvort hann er mjög sáttur við það frumvarp sem hér liggur fyrir miðað við þau auknu útgjöld sem það ber með sér.