135. löggjafarþing — 4. fundur,  4. okt. 2007.

fjárlög 2008.

1. mál
[16:03]
Hlusta

Ögmundur Jónasson (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Öryrkjum á Íslandi eru búin smánarleg kjör. Velferðarstofnanir sem starfa undir handarjaðri hæstv. fjármálaráðherra og ríkisstjórnarinnar standa frammi fyrir neyðarástandi margar hverjar. Það er ekki hægt að veita öldruðum og fötluðum þá þjónustu sem sæmandi er. Þessum stofnunum helst ekki á starfsfólki vegna lágra starfskjara.

Það sem við höfum verið að gagnrýna, og við erum einhuga í þeirri gagnrýni, er forgangsröðun ríkisstjórnarinnar. Við horfum á tugi milljarða sem standa út af í þessum fjárlögum og við erum að benda á hvert við viljum beina þessu fjármagni. Við erum líka að gagnrýna hvert ríkisstjórnin beinir peningum og höfum nefnt þar sérstaklega hernaðarmálin.

Hæstv. ráðherra talar um stór orð, um þjófnað og stuld, og þau eigi ekki við. Fulltrúi Orkuveitu Reykjavíkur sagði um daginn að það fyrirtæki byggi yfir mikilli viðskiptavild og það er rétt. Í hverju liggur þessi viðskiptavild? Hún liggur í Hellisheiðinni, hún liggur í Nesjavöllum, hún liggur í auðlindum Íslands. Það er um þetta sem verið er að tefla þegar menn eru að færa eignarhaldið á þessum auðlindum yfir í hendur einkageirans. Nú er þessi eignaraðild líka að færast til útlanda, eða hafa menn ekki heyrt getið um Goldman Sachs og aðra aðila sem eru að læsa klónum um auðlindir Íslands? Ef mönnum finnst þetta ekki vera neitt mál, að þetta séu bara viðskipti, (Gripið fram í: ... hafa ekki viðskipti.) þá held ég að menn séu komnir út á hálar brautir.