135. löggjafarþing — 4. fundur,  4. okt. 2007.

fjárlög 2008.

1. mál
[17:39]
Hlusta

Ármann Kr. Ólafsson (S):

Frú forseti. Það er satt best að segja ánægjulegt að standa hér og fjalla um fjárlagafrumvarp ársins 2008, frumvarp sem gerir ráð fyrir 38 milljarða kr. tekjuafgangi. Þetta er auðvitað mjög góð niðurstaða, ekki síst þegar litið er til þess að hún er mun betri en langtímaáætlun gerði ráð fyrir. Það sýnir hvaða árangri umbreytingar í íslensku samfélagi hafa skilað á undanförnum árum.

Það kemur manni hins vegar á óvart að ýmsir sem hér hafa talað eru ósáttir við það að ekki sé hægt að gera nákvæmari áætlanir þegar kemur að tekjuhlið ríkissjóðs, með öðrum orðum: að frelsi Íslendinga sé orðið slíkt að þeir geti tekið upp á því að framkvæma umfram það sem fjármálaráðuneytið eða Alþingi gerir ráð fyrir. Það truflar mig hins vegar alls ekki, jafnvel þó að það samræmist ekki áætlunarbúskaparhugsunarhætti og forræðishyggju margra þeirra sem hér hafa talað í dag. Það sem skiptir mestu máli, að því gefnu að tekjurnar séu ekki undir áætlun fjárlaga, er að útgjaldahlutinn standist. Það er staðreynd að sú skekkja sem að þeim lið snýr hefur verið 0,1–0,8% þegar horft er til samneyslu ríkis og almannatrygginga síðustu ára.

Það eru hins vegar auknar tekjur sem margir þingmenn hafa mestar áhyggjur af. Það vantar ekki að hv. þingmenn Vinstri grænna vilji eyða þessum tekjum sem allra fyrst og jafnvel ganga til kjarasamninga úr þessari pontu, helst í dag. En þannig gengur það ekki fyrir sig þótt ég sé sammála því að horfa verði sérstaklega til þeirra hópa sem minnst hafa í þjóðfélaginu. Það verður að horfa sérstaklega á þann hóp í komandi kjarasamningum, leiðrétta kjör þeirra án þess að það skili sér síðan upp allan launastigann og valdi víxlverkunum og verðbólgu sem kemur engum til góða og þeim allra verst sem síst skyldi.

Eins og ég kom inn á áður hafa Vinstri grænir sérstakar áhyggjur af því að ríkissjóður hafi meiri tekjur en ráð var fyrir gert. En það kemur okkur sjálfstæðismönnum ekkert á óvart. Við höfum margoft sagt að lækkun skatta leiðir til þess að tekjur ríkissjóðs aukist ef eitthvað er.

Hv. þm. Ögmundur Jónasson leggur í raun til skattalækkanir úr pontu í dag, talar um skattalækkanir, en formaður flokks hans, hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon, hefur hins vegar gagnrýnt hæstv. forsætisráðherra fyrir að nefna að svigrúm sé fyrir skattalækkanir á kjörtímabilinu.

Frú forseti. Hv. þm. Jón Bjarnason lék sér að því að setja hæstv. fjármálaráðherra í ýmis hlutverk í dag. Það varð til þess að ég fór ósjálfrátt, þar sem ég sat úti í sal, að setja Jón Bjarnason í annað hlutverk en hann á að venjast. Hvernig hefði málið litið við ef hann væri t.d. þingmaður á franska þinginu þar sem vandamálið er allt annað en hér. Þar er allt að 25% atvinnuleysi hjá ungu fólki á ákveðnum svæðum. Þar er málum jafnframt þannig farið að hagvöxtur er mjög lítill.

Það er merkilegt að rýna í töflur kynningarefnis fjármálaráðuneytisins sem gefið er út í tilefni af framlagningu frumvarpsins. Þar er staða Íslands borin saman við lönd OECD á árunum 2003–2007. Horft er til tekjuafkomu ríkissjóðs og hagvaxtar. Í slíkum samanburði kemur fram að tekjuafgangur ríkissjóðs og hagvöxtur eru hér með því besta meðal ríkja OECD.

Sé hins vegar horft til þeirra ríkja sem hvað minnstan hagvöxt hafa, til þeirra ríkja þar sem fjárlagahallinn er mestur, hvað kemur þá í ljós? Þar sitja lönd eins og Þýskaland, Holland og Frakkland. Þetta eru lönd sem við höfum ekki litið niður á hingað til. Þar eru líka Ítalía og Portúgal. En hvað eiga þessi ríki sammerkt? Jú, þau eru öll í Evrópusambandinu og nota hina margrómuðu evru. Hvort viljum við frekar glíma við hátt atvinnustig eða atvinnuleysi? Hvort viljum við frekar glíma við fjárlagaafgang eða fjárlagahalla? Ég held að allir Íslendingar séu sammála um að betra sé að glíma við hið fyrrnefnda. Ég spyr: Ef stjórnarandstaðan getur verið með svartsýni og bölmóð yfir fjárlagafrumvarpi næsta árs, hvernig væru þá ræður hennar í því efnahagsástandi sem mörg Evrópulönd, flest þeirra, búa við?

Öfugt við Vinstri græna gerir Framsóknarflokkurinn sér grein fyrir þessu. Framsóknarmenn telja að réttara sé að sýna aðhald við þessar kringumstæður en að ausa úr sjóðum ríkisins. Framsóknarflokkurinn hefur áhyggjur af því að þetta frumvarp sé allt of þanið. Við megum því væntanlega búast við því að Framsóknarflokkurinn leggi fram ítarlegar tillögur um hvar skera eigi niður og hvar aðhalds skuli gætt. Vill Framsóknarflokkurinn skera niður í samgöngumálum? Vill Framsóknarflokkurinn skera niður í almannatryggingum og velferðarmálum? Vill Framsóknarflokkurinn skera niður í heilbrigðismálum, samgöngum, löggæslu- og öryggismálum eða fræðslumálum?

Það gengur ekki upp að hv. þingmenn Framsóknarflokksins nefni ekki í nokkru hvar á að draga saman. Fyrrgreindir málaflokkar eru þeir einstöku málaflokkar sem mest er aukið við í fyrirliggjandi frumvarpi. Því munu niðurskurðartillögur væntanlega bitna á einhverjum þeirra eða öllum. Það hefur verið boðað að slíkar tillögur muni koma fram við 2. umr. og verður fróðlegt að sjá þær sundurliðaðar. Eina einstaka tillagan sem ég hef heyrt koma frá þeim er um útgjaldaaukningu til að skora stig í tengslum við mótvægisaðgerðir á landsbyggðinni. Þeir hafa lagt til útgjaldaaukningu.

Herra forseti. Staðreyndin er sú að fjárlagafrumvarpið undirstrikar sterka stöðu ríkissjóðs og öflugan rekstur ríkisins á undanförnum árum. Í því kemur fram að þrátt fyrir mikinn rekstrarafgang undanfarinna ára hefur aðhalds verið gætt í rekstri ríkissjóðs og afgangnum verið varið í að greiða niður skuldir. Þess vegna erum við orðin skuldlaus. Það er til marks um að stjórnvöld rækja hlutverk sitt af ábyrgð og hafa komið málum þannig fyrir að við munum búa við gott bú á Íslandi næstu árin og jafnvel leggja grunn að góðu búi næstu áratugina.