135. löggjafarþing — 4. fundur,  4. okt. 2007.

fjárlög 2008.

1. mál
[17:51]
Hlusta

Kristinn H. Gunnarsson (Fl) (andsvar):

Virðulegi forseti. Svona geta hv. þingmenn ekki talað þegar þeir semja fjárlög, að tala um að tekjuhlið fjárlaga sem megi vera skáldskapur og trufli menn ekkert þó hún sé fjarri öllum veruleika þegar upp er staðið. Áætlun sem stjórnvöld gera um tekjur eða gjöld er auðvitað alvörumál. Á grundvelli þeirra eru ákvarðanir teknar. Það er ekki boðlegt að tala um það af slíkri léttúð og kom fram hér í andsvari hv. þingmanns.

Ef þingmaðurinn skoðar muninn á áætlunum og reynslu af útgjöldum ríkissjóðs sér hann að fjármálaráðherra og hans mönnum gengur tiltölulega vel að sjá fyrir útgjöldin. Hvernig má það þá vera að þeim gangi ekki vel að sjá fyrir um tekjuhliðina?

Ég tel, virðulegur forseti, tölur ráðherrans fyrir þetta ár og næsta ár svo fjarri því sem ætla má að verði að það sé ekki áætlanagerð heldur séu settar fram tölur, vitandi vits að þær eru fjarri lagi, til að rugla umræðuna og villa um fyrir fólki. Ef þær tölur væru settar inn sem ég held að fjármálaráðherra hafi á borðinu hjá sér væri önnur mynd fyrir framan okkur. Þá væri hinn pólitíski veruleiki sá að menn ræddu um það hvort draga eigi úr skattheimtu eða jafna kjörin hér í landinu með frekari hætti en gert er ráð fyrir í fjárlagafrumvarpinu.

Með því að fara svo langt frá því sem ætla má að verði á tekjuhliðinni er verið að afvegaleiða þing og þjóð, virðulegi forseti.