137. löggjafarþing — 4. fundur,  20. maí 2009.

mál á dagskrá.

[14:00]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F):

Frú forseti. Það vekur furðu mína að á dagskrá þingsins skuli ekki vera eitt einasta mál sem varðar brýna hagsmuni íslenskra heimila og fyrirtækja. Til hvers erum við hér saman komin í sumar nema til að ræða þau mál?

Ég spyr, frú forseti: Er það virkilega svo að ríkisstjórnin hafi ekki óskað eftir því að kynna þingmönnum skýrslu um stöðu efnahagsmála? Ég vísa þar m.a. í ágætisábendingar vinstri grænna þegar næstsíðasta ríkisstjórn kallaði þing saman og vinstri grænir bentu vel og rækilega, og réttilega, á það að þá voru sett á dagskrá mál sem höfðu ekkert með ástandið að gera.

Hvaða mál eru hér á dagskrá? Það eru ýmis tæknileg mál um hlutafélög og einkahlutafélög. Það hljómar ágætlega, það á að spá eitthvað í kynjahlutföll. En hvað er það? Það á að birta í ársskýrslum fyrirtækja upplýsingar um fjölda kvenna og karla í stjórnum fyrirtækja. Í ársskýrslum fyrirtækja eru þegar birtar upplýsingar um það hverjir sitja í stjórn. Þetta er væntanlega fyrir þá sem geta ekki greint á milli kven- og karlmannsnafna.

Hvað er svo fleira? Erfðabreyttar lífverur. Eiturefni og hættuleg efni. Meðhöndlun úrgangs. Eflaust eru þetta allt góð mál, eins og þingmál eiga alltaf að vera, en (Forseti hringir.) vorum við ekki hingað saman komin til að að ræða eitthvað allt annað?