138. löggjafarþing — 4. fundur,  7. okt. 2009.

staða heimilanna.

[14:44]
Horfa

félags- og tryggingamálaráðherra (Árni Páll Árnason) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka fyrir þessa umræðu og tek undir með hv. þingmanni að það er mikilvægt að við eigum gott samtal um þessi mál hér í dag. Þetta er gríðarlega mikilvægt verkefni að finna vinnandi leið út úr skuldavanda heimilanna og mikils virði er að við byggjum um það eins góða samstöðu og kostur er.

Ég vil þess vegna fyrst koma á framfæri þökkum til þeirra þingmanna úr stjórnarandstöðu og þeirra hagsmunaaðila, aðila vinnumarkaðarins og svo margra annarra, sem við höfum verið í sambandi við á undanförnum vikum. Það hefur verið mjög lærdómsríkt, jákvætt og þakkarvert að við höfum náð góðum og uppbyggilegum samtölum um þessi mál. Það hefur hjálpað okkur mikið til að átta okkur á málunum og ég held að það skipti máli að við vinnum áfram í þeim anda. Ég nefni sérstaklega hv. málshefjanda Guðmund Steingrímsson og hv. þm. Unni Brá Konráðsdóttur og Tryggva Þór Herbertsson sem við höfum átt allmikið samband við á síðustu vikum um þessi mál.

Þegar við fórum að horfa til þess hvaða leiðir væri hægt að fara reyndum við auðvitað að mæta þeim réttlætisrökum sem sett hafa verið fram. Það var markmið hjá okkur að reyna að tryggja að hjá þeim þar sem skuldsetningin var í lagi fyrir hrun yrði hún áfram í lagi eftir hrun. Við þyrftum að horfa til almennra aðgerða sem gætu náð því marki. Þá skipti miklu að þær aðgerðir skiluðu raunverulega þeim árangri en ekki einhverjum allt öðrum. Þeim mun meira sem við veltum málinu fyrir okkur sáum við enga aðra leið en þessa tengingu við greiðslujöfnunarvísitöluna, sem sagt færsla viðmiðana afborgananna aftur í tímann og tengingu þaðan við launaþróun og atvinnustig, engin önnur leið gæti mætt þessu takmarki með jafngóðum hætti.

Við horfðumst í augu við að að óbreyttu stefndi í að um 20 þúsund manns færu í gjaldþrot af ástæðum sem að engu leyti snertu afkomu og skuldsetningu þeirra, fólkið hafði áfram sömu tekjur eða svipaðar tekjur en skuldabyrðin hafði einfaldlega vaxið langt umfram það sem nokkur leið var að kljúfa. Það töldum við vera alvarlegasta og brýnasta vandann sem við þyrftum að takast á við. Við reyndum með þessari aðgerð að flytja áhættu af fólki yfir á bankana. Við erum að flytja áhættuna af frekari verðhækkunum í gegnum þann óróatíma sem fram undan er af skuldurum yfir á lánastofnanirnar og eins gengisáhættuna af skuldurunum. Þeir sem skulda gengistryggð lán geta því óhræddir haldið áfram að borga af þeim og þurfa ekki að óttast frekari veikingu krónunnar, sem gæti auðvitað átt sér stað. Á þessum miklu óvissutímum fannst okkur það vera mjög mikilvægur þáttur í þessum aðgerðum að koma óvissunni og áhættunni yfir á lánastofnanirnar með þessum hætti. Það er auðvitað viðurkenning á því grundvallaratriði að almennar aðgerðir skipti máli í þessu heildarsamhengi. Ella hefðum við þurft að leggja gríðarlegt álag á sértæk úrræði sem hefði verið mjög erfitt vegna þess hversu mikinn fjölda þarna er um að ræða sem hafði ekki efnt til ósjálfbærrar skuldsetningar en stóð skyndilega frammi fyrir því að eðlileg skuldsetning var orðin algjörlega óviðráðanleg.

Í framhaldinu gerum við síðan ráð fyrir því að ljúka frekari vinnu í samvinnu við bankana við sértæk úrræði þar sem bankarnir geti þá nýtt það svigrúm sem þeir hafa til að auðvelda eftirgjöf skulda og afskriftir og taka þar á þeirri skuldsetningu sem enn þá verður óviðráðanleg eftir þessar almennu aðgerðir.

Við þurfum síðan skoða hvernig markaðurinn getur unnið úr þessum málum. Ég er sammála hv. þingmanni um að það er mikilvægt að afleiðingin verði ekki sú að skuldsetningin sem eftir stendur standi í vegi fyrir fasteignaviðskiptum eða eðlilegu gangverki samfélagsins. Það er auðvitað viðfangsefni okkar allra á næstu mánuðum að taka á því. Fyrirtæki munu bregðast við því, eins og hv. þingmaður rakti, með tilboðum til viðskiptavina sinna. Og ég hef fullan hug á því að Íbúðalánasjóður komi í ákveðið ljósmóðurhlutverk hvað það varðar og greiði fyrir fjármögnun slíkra tilboða af hálfu bankanna þannig að bankarnir eigi þá auðveldara með að bjóða viðskiptavinum sínum lausnir í þeim efnum. (Forseti hringir.) Í því efni held ég að það sé rétt, eins og hv. þingmaður rakti, að við horfum til þess að auka fjölbreytni í lánaframboði og (Forseti hringir.) m.a. að bjóða upp á óverðtryggð lán sem væri þá hægt að veita með sjálfbærum hætti, með forfjármögnuðum hætti þannig að óvissa væri ekki um lánskjör.