143. löggjafarþing — 4. fundur,  4. okt. 2013.

fjárlög 2014.

1. mál
[11:18]
Horfa

utanríkisráðherra (Gunnar Bragi Sveinsson) (F):

Virðulegi forseti. Til upprifjunar var hv. þingmaður í stjórnarmeirihluta á síðasta kjörtímabili, í fjögur ár. Til upprifjunar voru það síðustu stjórnarflokkar, Vinstri græn og Samfylking, sem ákváðu til dæmis að auðlegðarskattur yrði bara tímabundinn, gleymið því ekki, ef hv. þingmaður var að tala um það sem skatt á stóreignamenn.

Hv. þingmaður talar um aðför að landsbyggðinni. Það var aðför að landsbyggðinni þegar stjórnarflokkarnir fyrrverandi skiluðu af sér fjárlögum sem við erum núna að reyna að bæta í. Hvað hefði 25–30 milljarða gat þýtt fyrir landsbyggðina? Það hefði væntanlega þýtt, ef við hefðum ekki gripið inn í núna, að þeir ágætu stjórnarflokkar sem voru hér síðasta kjörtímabil hefðu haldið áfram að skera niður í heilbrigðisþjónustunni og löggæslunni. Það er nákvæmlega það sem var verið að gera. Það sem þessi ríkisstjórn er núna að gera er að reyna að stoppa í þetta gat sem var skilið hér eftir, einmitt til þess að verja ekki bara landsbyggðina heldur samfélagið allt á Íslandi sem þessir stjórnarflokkar, Vinstri græn og Samfylking, skildu á sínum tíma eftir í rjúkandi rúst.

Hv. þingmaður talar um veiðigjaldið. Voru það ekki hugmyndir sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherrans hennar á sínum tíma að veiðigjaldið rynni allt í ríkissjóð og færi þaðan eitthvað út í hítina? Hvað varð um tillögur okkar á þeim tíma, að hluti veiðigjaldsins rynni til nýsköpunar, til byggðanna aftur? Því var öllu hent út um gluggann af einmitt fyrrverandi formanni hv. þingmanns.

Það er með ólíkindum að hlusta á stjórnarþingmanninn fyrrverandi tala eins og þingmaðurinn hafi aldrei nokkurn tímann verið hluti af ríkisstjórn sem var hér í fjögur ár og skildi við allt í kaldakoli.