143. löggjafarþing — 4. fundur,  4. okt. 2013.

fjárlög 2014.

1. mál
[14:26]
Horfa

Ásmundur Friðriksson (S):

Virðulegi forseti. Ég fagna hugmyndum um sameiningu sjúkrastofnana á landsbyggðinni ef markmiðið er að styrkja faglegan þátt starfseminnar. Ég held að það sé gríðarlega mikilvægt að við gerum það, þá væntanlega á kostað stjórnunarþáttarins. Við þurfum að tryggja grunnþjónustuna á landsbyggðinni, það er áríðandi að hún sé tryggð, og að heilsugæslan, nærþjónustan, verði einnig tryggð, það er gríðarlega mikilvægt, og að við séum að senda þau skilaboð út í samfélagið að við séum ekki að fækka starfsfólki við þessa þjónustu. Það er líka mikilvægt og ég spyr hæstv. ráðherra að því hvort það sá þá ekki hugmyndin með sameiningunni að rótera sérfræðingum, læknum og hjúkrunarfólki, á milli stofnana til þess að auka þjónustuna á landsbyggðinni og gefa fólki tækifæri til að njóta sem mestu af þeirri þjónustu sem er í boði í heimabyggð.

Ég tek undir það sem hér hefur komið fram og minni á forvarnir og lýðheilsu, sem er mikilvægt atriði í heilbrigðisþjónustunni, sambærilegt því sem heilsustofnunin í Hveragerði og álíka stofnanir standa fyrir. Það er gríðarlega merkilegt starf og mikilvægt að standa að forvörnum og lýðheilsu.

Í rauninni er forgangsröðun dauðans alvara. Í þessu ákalli um aukna fjármuni til heilbrigðisþjónustunnar og fatlaðra og menntunar og löggæslu — ef við meinum eitthvað með því verðum við auðvitað að leggja kalt mat á það sem fyrir hendi er. Við þurfum þá að velja á milli þess að vera með öflugan Landspítala eða veikari utanríkisþjónustu. Við þurfum að velja um öflugri sjúkrahús á landsbyggðinni eða menningarstarfsemi sem ég er reyndar mikill talsmaður fyrir en við þurfum að velja þar á milli, þurfum að hafa þor í það. Og við þurfum kannski að velja á milli þess hvort við ætlum að hafa öfluga heilsugæslu eða Ríkisútvarp sem kostar 4 milljarða. Við þurfum að hafa þor til þess að velja um heimaþjónustu eða Fiskistofu. Ég væri ekki í neinum vafa um hvað ég mundi velja í þeim efnum. (ÖS: Fiskistofu?) [Hlátur í þingsal.] Við þurfum að efla grunnþjónustuna, (Gripið fram í: Heyr, heyr!) það er málið. Þá held ég að gæluverkefni eins og fæðingarorlof og skógrækt og Sinfóníuhljómsveitin verði að bíða.

Við þurfum að hafa þor til að stjórna, ég held að þetta snúist um það.