143. löggjafarþing — 4. fundur,  4. okt. 2013.

fjárlög 2014.

1. mál
[14:35]
Horfa

Guðbjartur Hannesson (Sf):

Hæstv. forseti. Við í fyrri ríkisstjórn vorum hætt að skera niður í heilbrigðismálum fyrir ári, við tókum ákvörðun um það í fjárlögum að fara ekki í frekari niðurskurð í þessum málaflokki. Það var einfaldlega komið nóg og við ákváðum að fara að bæta í.

Ég gef ágætum félaga mínum, hæstv. heilbrigðisráðherra, sem ég treysti til allra góðra verka, þetta góða ráð: Ekki byrja aftur. Það var nóg komið og ég heiti stuðningi mínum og Samfylkingarinnar við ráðherrann, við fjárlaganefnd og Alþingi við að draga til baka boðaðan niðurskurð í fjárlagafrumvarpinu og bæta við þannig að við getum byggt þar upp og bætt það sem helst liggur á að bæta. Enn eru 350 milljónir í niðurskurð á heilbrigðisstofnunum um land allt og heilsugæslu og það er einfaldlega ekki hægt að bjóða upp á það. Þá tala ég að fenginni reynslu og þekkingu á því sem þar er verið að gera.

Mér finnst engu að síður mikilvægt að benda á ýmislegt sem komið hefur fram hjá hæstv. ráðherra og fleirum sem hér eru: Þjóðin vill gott heilbrigðiskerfi, sambærilegt því sem gerist best í nágrannalöndunum. Þjóðin vill að heilbrigðisþjónustan sé rekin á ábyrgð ríkisins og í þágu allra og að ekki verði hér tvöfalt kerfi. Þjóðin vill að þjónustan sé óháð efnahag og veitt eins nærri þeim sem þurfa að nota hana og hægt er. Þjóðin vill að við gerum okkur öll grein fyrir því að forsenda góðrar heilbrigðisþjónustu er vel menntað og þjálfað heilbrigðisstarfsfólk sem þarf að búa við góð kjör. Við erum sammála um það, og höfum verið til skamms tíma, að taka þurfi upp þjónustustýringu í heilsugæslunni. Það er heldur ekki ágreiningur um að við verðum að vinna að jöfnun í sambandi við gjaldtöku eins og komið hefur fram í umræðunni. Ekki er hægt að bjóða upp á þá mismunun sem þar er. Þar vil ég segja við hæstv. ráðherra: Leyfum Pétursnefndinni að ljúka störfum áður en við förum að setja tölur í fjárlagafrumvarpið um frekari gjöld eða tekjur hvað þetta varðar.

Þetta er ekkert auðvelt verkefni og við vissum það. Þess vegna er mikilvægt að við vöndum okkur. En ekki verður komist hjá því að bæta í á sumum stöðum. Nú er það Landspítalinn sem sérstaklega hefur verið rætt um, þar þarf að skapa framtíðarsýn. Nokkur skref hafa verið stigin sem eru mikilvæg, t.d. það að opna hjúkrunardeild á Vífilsstöðum. Verið er að bæta áfram við það sem við gerðum, við bættum um 800 milljónum í S-merktu lyfin, það er bætt við áfram. Gefin hefur verið yfirlýsing um að peningar verði settir í tækjakaup og við treystum á að svo verði. Við treystum á að það verði ekki þannig að menn þurfi að mæta viðbótarkostnaði vegna jafnlaunaátaks — ekki vegna þess að það sé beint samhengi þar á milli — með frekari niðurskurði annars staðar. Það þarf að tryggja að stofnunin geti byggt sig upp áfram.

Mig langar að spyrja ráðherra (Forseti hringir.) um þessa þætti, hvort hann sé ekki sammála mér um þessa (Forseti hringir.) greiningu, bæði á viðhorfum þjóðarinnar og (Forseti hringir.) hvað sé brýnast á næstu dögum.