143. löggjafarþing — 4. fundur,  4. okt. 2013.

fjárlög 2014.

1. mál
[20:05]
Horfa

Guðbjartur Hannesson (Sf):

Hæstv. forseti. Mig langar aðeins að ítreka spurningu mína um hvaða vísitala var notuð og fá svar við því einfaldlega vegna þess að ég hef ekki náð að fletta því upp. Var notuð vísitala neysluverðs, sem mér sýnist vera 3% hækkun á bótum, eða var notuð launavísitala? Ég spyr vegna þess að það hefur verið ágreiningsefni við öryrkja og ellilífeyrisþega með hvaða hætti hlutirnir hafa verið bættir. Við sátum undir gagnrýni um að við hefðum ekki fylgt þeirri reglu að alltaf skyldi taka hærri vísitöluna, þ.e. neysluverðsvísitölu eða launavísitölu eftir því hvor væri hærri á hverjum tíma. Þeir túlkuðu það þannig að fylgja ætti fjárlagafrumvarpinu.

Ég skal viðurkenna það hreinskilnislega og hef gert áður í þessum ræðustóli að miðað við það að við hefðum fylgt því allan tímann í gegnum hrunið og eftir það skuldum við enn þá 6,2% til þessara hópa sé litið til þess sem skert var. Það er því óbætt enn, öryrkjar og raunar fleiri segja að það sé yfir 20% en ég tel að þetta sé nokkuð nærri lagi.

Þá er spurningin: Sjá menn fyrir sér að reyna að bæta þetta? Það kom mér á óvart að svarið væri að menn teldu að allt hefði gengið til baka sem skert var. Í rauninni er það tvennt sem kemur til framkvæmda nú um áramótin nákvæmlega það sem var löngu búið að ákveða. Það hefur því ekkert bæst við eða breyst frá því sem áður var ákveðið nema það kom fyrr að sumrinu til varðandi tekjutengingar.

Þá langar mig að spyrja: Hvernig er útkoman á þessum breytingum hingað til hvað varðar þá sem eru með lægstu tekjurnar, sem lifa eingöngu á bótum og eru ekki með neinar lífeyristekjur eða atvinnutekjur? Er einhver breyting hjá þeim umfram vísitölu? Hvað líður þá því sem var auðvitað mikill veikleiki en styrkleiki gegnum hrunið að bæta við sérstakri framfærsluuppbót sem bjargaði þeim 5 þúsund sem voru með lægstu bæturnar? Þar var skerðing króna á móti krónu. Er einhver lagfæring á því eða áform um að breyta því? Það var inni í frumvarpinu um almannatryggingarnar og skiptir mjög miklu máli að það komist áfram(Forseti hringir.) og til þingsins.