145. löggjafarþing — 4. fundur,  11. sept. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[12:00]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Árið 2008 var vissulega mikið framkvæmdaár. Núna er bara verið að leggja til fjórðung til nýframkvæmda miðað við það ár. Það er bara verið að leggja til tæplega helming ef við núvirðum þetta miðað við árið 2004. Við erum í öllum samanburði sögulega mjög lág í framlögum. Það er rétt að þetta flæðir á milli kjörtímabila. Það sem ríkisstjórnin er að vinna með núna eru áætlanir sem lagt var upp með í tíð fyrri ríkisstjórna. Það hefur ekkert nýtt komið frá þessari ríkisstjórn. Við verðum að fara að sjá á spilin þegar við erum komin með milljón ferðamenn inn í landið og gríðarlegt álag á samgöngukerfið, þá verðum við að fara að sjá hvernig menn ætla að auka fjármuni í samgöngumál á komandi árum.

Virðulegi forseti. Mig langar aðeins að snúa við og spyrja hæstv. ráðherra — talandi um ferðaþjónustuna þá hefur hv. þm. Kristján L. Möller núna ásamt fleiri þingmönnum lagt fram mál sem snýr að flugvöllum, millilandaflugi á flugvelli t.d. á Egilsstöðum og Akureyri — sem snýr að því að ráðuneyti hæstv. ráðherra fari að leggja í þá vinnu að koma með tillögur um með hvaða hætti við gætum laðað millilandaflug inn á þessa velli. Ég er þeirrar skoðunar og styð tillöguna heils hugar vegna þess að ég tel hana mjög mikilvæga fyrir ferðaþjónustuna. Okkur hefur í fyrsta lagi tekist að fá ferðamennina til landsins. Í öðru lagi hefur okkur tekist að dreifa þeim ágætlega yfir árið. Í þriðja lagi þurfum við að leggja meiri áherslu á að dreifa þeim betur um landið allt árið um kring. Lykillinn er millilandaflug inn á önnur svæði en suðvesturhornið. Því vil ég spyrja hæstv. ráðherra hvort til greina komi að við förum bara beint í það að setja fjármuni í markaðssókn fyrir þessa flugvelli, þ.e. að það fari markað fé til þessara flugvalla þannig að við getum ráðist í slíkt verkefni á komandi missirum.