145. löggjafarþing — 4. fundur,  11. sept. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[12:59]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg):

Frú forseti. Ég vil aðeins halda áfram á svipuðum slóðum, þ.e. með Þróunarsamvinnustofnun. Í fjárlagafrumvarpinu stendur að gerð sé tillaga um sérstaka 26 millj. kr. lækkun á framlögum til þróunarmála í samræmi við markmið um aðhald í útgjaldaramma. Á sama tíma og við ætlum að lækka framlögin til þróunarmála kemur líka fram í frumvarpinu að Ísland eyði nú um stundir 1,2 milljörðum í öryggis- og varnarmál. Sumum þykir nóg um það en þar á hins vegar að gefa í, talsverð aukning er til varnarmála og lagt er til að framlög í þau verði aukin um 213 millj. kr. Þetta er forgangsröðunin sem ég les út úr fjárlagafrumvarpinu. Þó svo að hæstv. utanríkisráðherra segi að hann telji þróunarsamvinnu einn af hornsteinum íslenskrar utanríkisstefnu þá er það ekki það sem ég les út úr þessu fjárlagafrumvarpi heldur sýnist mér að hjarta hæstv. ráðherra slái frekar í þá átt að hann vilji auka framlög til varnarmála, svo dæmis sé tekið að auka fé sem eyrnamerkt er loftrýmisgæslu NATO-herja hér á landi um 75 millj. kr.

Það er kannski ágætt að rifja það upp að eftir að herinn fór haustið 2006 var loftrýmisgæslu komið á og landið þar með í rauninni gert að æfingaflugsvæði fyrir þá flugmenn þeirra NATO-þjóða sem hingað vildu koma og það væri jafnvel greitt með þeim. Nú stendur sem sagt til að auka aftur og bæta í loftrýmisgæsluna þó svo að að mínu mati hafi hún engan raunverulegan varnartilgang. Mig langar að spyrja hæstv. ráðherra í ljósi nýjustu frétta sem meðal annars var hægt að lesa um á vef RÚV í gær, um meintan áhuga Bandaríkjahers sem fær á nýjan leik aðstöðu til að vera hér á landi: Miða þau auknu umsvif sem hér eru lögð til í loftrýmisgæslu að því að auðvelda þá endurkomu? Er eitthvert samhengi þar á milli?

Svo langar mig líka að spyrja um afstöðu hæstv. ráðherra: Telur hann að hugmyndir af því tagi að forgangsraða peningunum með þessum hætti séu ekki bara til þess að blása á ný (Forseti hringir.) glæðum í kalda stríðið með því að setja peningana í NATO í stað þess að styrkja fátækt fólk víðs vegar um heim?