145. löggjafarþing — 4. fundur,  11. sept. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[14:09]
Horfa

umhverfis- og auðlindaráðherra (Sigrún Magnúsdóttir) (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir fyrirspurnina. Varðandi friðlýsingar höfum við nokkrum sinnum farið yfir þær hér.

Vissulega er lagt til aukið fé en þar má auðvitað gera betur eins og í mörgu öðru. Ég hefði kosið að fá aukið fjármagn og ég sé til hvort hægt sé að gera eitthvað varðandi það milli umræðna um fjárlög, en ég er nokkuð sátt við það sem verið er að vinna að. Við höfum lagt áherslu á fjölgun landvarða, eins og ég gat um í ræðu minni, og svo höfum við líka verið að gera verndar- og skipulagsáætlanir og hefur verið ráðinn mannskapur til að geta unnið þær með betri hætti.

Varðandi gróðurhúsalofttegundir og aðgerðaáætlun þá er vissulega tekið tillit til aðgerðaáætlunarinnar í vinnu okkar varðandi loftslagsmálin. Þó að hennar sé kannski ekki getið sérstaklega í fjárlögum er hún undir loftslagsmálum sem verið er að vinna að þvert á nokkur ráðuneyti. Mér heyrðist hæstv. utanríkisráðherra fara ágætlega yfir þá góðu vinnu sem verið er að vinna í því efni. En það er margt sem fólk leggur fram, ég nefni bara eitt tímans vegna, það varðar að auka hér mjög vistvæna orku varðandi bílaflotann og líka varðandi sjávarútveginn.