145. löggjafarþing — 4. fundur,  11. sept. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[15:35]
Horfa

Páll Valur Björnsson (Bf):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á að þakka heilbrigðisráðherra fyrir greinargóða lýsingu á þessu fjárlagafrumvarpi og þeirri aukningu sem fer til heilbrigðismála. Það er alveg ástæða til að fagna allri aukningu í þennan málaflokk, ekki veitir af, og það er mjög ánægjulegt að efla eigi heilsugæsluna og auka hjúkrunarrými og fjölga sálfræðingum, sem ekki er vanþörf á. Það sem mig langaði til þess að ræða aðeins við hæstv. heilbrigðisráðherra er málefni barna. Ég sendi í vor inn fyrirspurn til hans í sambandi við greiningar á börnum með ADHD og skyldar raskanir. Þau svör sem ég fékk þar voru frekar sláandi því að biðlistarnir eftir greiningum við þessar raskanir eru gríðarlega miklir, svo langir að biðin eftir því að fá greiningar er jafnvel upp í eitt til tvö ár. Þetta er ekki síst alvarlegt, finnst mér, vegna þess að maður sér þess ekki stað í fjárlagafrumvarpinu að auka eigi í þennan málaflokk og vinna á biðlistunum. Árið 2011 kom barnaréttarnefnd Sameinuðu þjóðanna með ábendingar til íslenskra heilbrigðisyfirvalda um að við stæðum okkur ekki í þessum málaflokki, við yrðum að gera bragarbót á til að geta staðið undir því að vera aðilar að barnasáttmálanum. Þetta var 2011 og nú er 2015 og það hefur ekkert gerst nema ástandið kannski versnað. Ég hef það fyrir satt að í sumar lengdust biðlistarnir og nú er það orðið þannig að börnin þurfa að bíða allt upp í 16 mánuði eftir greiningu.

Því langar mig til að spyrja hæstv. heilbrigðisráðherra hvort hann vilji ekki leggja sig allan fram í það að bæta í þennan málaflokk. Við erum í rauninni að mismuna börnum og samkvæmt 2. gr. barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna megum við það ekki. Við erum að brjóta mannréttindi með því að sinna ekki þessum börnum. Það er bara þannig í hinu hraða nútímasamfélagi að þessi frávik eru að aukast. Kvíði og alls kyns geðraskanir hjá börnum hafa aukist alveg gríðarlega á síðustu árum og ef ekki verður gripið inn í tímanlega, helst á fyrstu stigum, erum við að skerða lífsgæði barnanna, og ekki síst fjölskyldna þeirra, gríðarlega. Þess vegna finnst mér sárt eða mjög erfitt að sjá að ekki skuli vera bætt í málaflokkinn, því að það eru 162 milljarðar sem fara í heilsugæsluna sem eru gríðarlegir fjármunir, en það er kannski dropi í hafið sem þyrfti til að bæta þessa þjónustu.