145. löggjafarþing — 4. fundur,  11. sept. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[15:40]
Horfa

Páll Valur Björnsson (Bf):

Hæstv. forseti. Ég þakka hæstv. heilbrigðisráðherra fyrir svarið. Ég geri mér grein fyrir því að hann hefur, og ég efast ekki um það, ríkan vilja til að reyna að taka á þessu. Hvað varðar það hvernig stendur á fjölguninni er kannski ekki gott að segja. Áður fyrr voru svona krakkar dæmdir óþekkir og erfiðir, tossar og þar fram eftir götunum, en núna hefur þessu fagi fleygt fram. Ég veit það sem eiginmaður leikskólastjóra að leikskólakennarar og leikskólastjórar taka strax eftir því ef börn sýna öðruvísi hegðun en normið er, sem við erum að tala um. Þá eru strax gerðar ráðstafanir til að koma viðkomandi barni til hjálpar en það getur verið erfitt að eiga við það ef bíða þarf upp undir eitt til tvö ár eftir greiningu. Það er náttúrlega gríðarlega erfitt vegna þess að við vitum að ef barnið fær ekki greiningu fær skólinn eða stofnunin ekki fjármagn til að sinna barninu.

Ég sendi líka fyrirspurn til innanríkisráðherra um afplánanir og fanga og það kemur í ljós að um 50–60% fanga á Litla-Hrauni og á Íslandi yfir höfuð eru með ADHD og geðrænar raskanir. Við sjáum því að ef við leggjum pening í þetta strax á fyrstu stigum spörum við gríðarlega fjármuni. Og við erum ekki aðeins að spara fjármuni heldur erum við að auka lífsgæði þessara einstaklinga, sem hefðu kannski ekki leiðst út á glapstigu ef þeir hefðu fengið greiningu strax og úrræði. Við vitum að einn fangi á Íslandi kostar ríkið um 10 milljónir á ári og ef við gætum fækkað þeim um tíu eru komnar 100 milljónir, þetta er fljótt að skila sér. Ég skora á heilbrigðisráðherra, ég veit að hann hefur sterkan vilja til þess, að taka á málinu þannig að við getum uppfyllt skilyrði okkar sem meðlimir að barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna og mannréttindayfirlýsingu Sameinuðu þjóðanna.