145. löggjafarþing — 4. fundur,  11. sept. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[16:10]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Frú forseti. Ég get verið sammála hæstv. ráðherra um að það er ánægjulegt að sjá þetta mikla fjármuni fara til samkeppnissjóðanna, Tækniþróunarsjóðs, og ég fagna því að hæstv. ríkisstjórn sá að sér í þeim efnum eftir slæma byrjun þegar hún skar niður framlög til sjóðanna af því að aukningin í þá á árunum 2012 og 2013 hafði verið í fjárfestingaráætlun fyrri ríkisstjórnar. Síðan hefur ríkisstjórnin aftur sett í gang aukningu í samræmi við tillögur Rannsóknaráðs, eins og fyrri stjórn gerði og byggði á metnaðarfullri vinnu sem unnin var á vegum Rannsóknaráðs, og það er vel.

Nú njóta ýmsir litlu sjóðirnir, sem komið var á fót til að styðja við hinar skapandi greinar í tíð fyrri ríkisstjórnar, svo að það sé nú sagt, aftur aukins meðbyrs og því fögnum við.

Ég vil spyrja um Ísland allt árið. Þó að mér sé ljóst af lestri greinargerðarinnar að verkefnið heldur í sjálfu sér áfram á næsta ári hefur þetta verið gert svona núna mörg ár í röð og þá hlýtur maður að spyrja hvað standi til. Á bara að nota næsta ár í að velta því fyrir sér hvort eitthvert áframhald eigi að verða á skynsamlegri og markmiðsmiðaðri markaðssetningu fyrir Ísland? Þarna hefur verið horft á veturinn, sem ég held að sé enn skynsamleg áhersla til að jafna út sveiflurnar á milli sumars og vetrar. Ég held það sé líka gott að viðhalda ágætu samstarfi stjórnvalda og greinarinnar, þannig að menn geti verið með tiltekin markmið í gangi um það hvernig landið er kynnt og markaðssett. Mér finnst að ráðherra eigi að skýra það aðeins betur fyrir okkur hver afstaða hennar er til framhaldsins. Er hún sátt við að þetta hætti?

Um Framkvæmdasjóð ferðamannastaða mætti hafa langt mál, þar á meðal mætti minnast á þá hörmung að enn á að skerða markaðar tekjur sjóðsins um 13 millj. kr. Þessi 60% af gistináttagjaldinu sem fara þangað inn eiga ekki einu sinni að fá að halda sér, þriðja árið í röð. Það finnst mér heldur dapurt. Í öðru lagi spyr ég: Er tryggt að allar fjárveitingar frá sjóðnum verði yfirfærðar? Hefur fjármálaráðherra samþykkt að allir fjármunir sjóðsins fáist færðir yfir milli fjárlagaára? Það er ekki sjálfgefið að svo sé þegar um aukafjárveitingar úr ríkissjóði tvö ár í röð er að ræða.

Það kemur væntanlega ekkert óskaplega mikið á óvart að þetta hafi gengið illa vegna hringlsins sem verið hefur í þessum málaflokki. Má ég minna á að sjóðnum hafa á fjárlögum ekki verið skammtaðar neinar teljandi tekjur nema gistináttagjaldið tvö ár í röð? Síðan hefur því verið bjargað með fjáraukalögum, þannig að stjórnvöld bera sína ábyrgð á því.

Ég vil í þriðja lagi spyrja um fleiri fluggáttir inn í landið, samanber yfirlýsingar forsætisráðherra og fleiri um það mál. Gott ef ekki er komin nefnd í málið, sem mjög er í tísku að gera. En hvað með fjármunina? Stendur til að eyrnamerkja því fjármuni, að hægt verði að setja í gang kraftmikið átak í samstarfi við heimamenn um að opna fleiri fluggáttir (Forseti hringir.) inn í landið? Svo finnst mér líka hæstv. ráðherra, sem skautaði reyndar yfir það, eiga að svara því hvernig á því stendur að 60 millj. kr. framlag til aukinna rannsókna í ferðamálum er fellt niður og hvað eigi að koma í staðinn. Er ekki allir sammála um að það (Forseti hringir.) sárvanti grunnrannsóknir og greiningar og fræðilega vinnu í þessari stærstu gjaldeyrisskapandi atvinnugrein þjóðarinnar? Eru það góð skilaboð að henda út þó þessum 60 milljónum sem settar voru inn í fyrra í rannsóknir?