145. löggjafarþing — 4. fundur,  11. sept. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[16:55]
Horfa

iðnaðar- og viðskiptaráðherra (Ragnheiður E. Árnadóttir) (S):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna. Ég er alveg sammála því sem kom fram hjá henni enda þekkir hún átakið Ísland allt árið frá upphafi og ég hef tekið við þeim kyndli. Lykilatriðið í því hversu farsælt það hefur verið er kannski tvennt: Það er samstarfið milli hins opinbera og fyrirtækjanna og samstarfsaðilanna og síðan að það er sveigjanlegt. Við getum einbeitt okkur að því sem við viljum gera betur eða náð okkar markmiði með ferðaþjónustunni og þetta þarf að fara saman.

Hv. þingmaður spyr um vinnuna gagnvart markaðssókninni. Já, það er stór liður í stefnumótunarvinnunni sem við erum að leggja lokahönd á og verður kynnt á allra næstu dögum og vikum með ferðaþjónustunni. Þetta er eitt af þeim mikilvægu atriðum þar sem við þurfum að koma okkur saman um stefnu, hvernig við ætlum að halda á þessu og hvernig við höldum það út vegna þess að þetta er langhlaup. Síldin kom og síldin fór og við viljum ekki að það gerist með ferðamennina, að við hættum að markaðssetja Ísland bara af því að akkúrat núna eru margir ferðamenn. Þetta er fljótt að breytast og þess vegna skil ég vel og þakka ábendingar hv. þingmanns.

Varðandi fleiri fluggáttir þá er það að frétta af því máli að þetta kemur allt saman inn í stefnumótunina og snýr að dreifingu ferðamanna. En forsætisráðherra skipaði fyrir nokkrum mánuðum nefnd sem er að fara yfir þessi mál sem ég vænti að muni skila tillögum vonandi fljótlega. Við vitum alveg hvað við þurfum að gera. Það þarf að vekja áhuga. Við erum alltaf að kynna þetta fyrir öllum flugfélögum sem hingað koma. (Forseti hringir.) Ef markaðsaðstæður einar og sér verða ekki til þess að þarna verði breytingar á þá er spurning hvort ekki þurfi að koma til svokallaður, afsakaðu herra forseti enskuslettuna, (Forseti hringir.) „route development fund“, sjóður til að efla þetta. (Forseti hringir.) Við bíðum niðurstöðu nefndarinnar með því að taka ákvörðun um það.