145. löggjafarþing — 4. fundur,  11. sept. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[17:30]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Virðulegi forseti. Fyrst vil ég segja að liðurinn um Byggðaáætlun og sóknaráætlanir hækkar um 15% frá fyrra ári.

Svo verð ég að segja alveg eins og er að það vekur mér nokkra furðu að svo reynslumikill þingmaður og fyrrverandi fjármálaráðherra lesi fjárlögin með þessum augum.

Varðandi Brothættar byggðir hefur um árabil verið fast 50 millj. kr. framlag til átaksverkefnisins. Það heldur að sjálfsögðu áfram. Í fyrra veittum við 50 millj. kr. viðbótarframlag til þess málaflokks, þ.e. þá fékk málaflokkurinn 100 millj. kr. Við veltum því auðvitað fyrir okkur hvort ekki ætti að halda áfram að vera með liðinn af þeirri stærðargráðu, en það kom hins vegar í ljós að þessir fjármunir hafa ekki verið nýttir til þessa. Það er því eðlilegt að Byggðastofnun nýti þá fyrst til verkefnisins áður en við leggjum til að viðhalda fjárlagalið sem ekki er nýttur. Það getur vel verið að auka þurfi að það aftur á næstu árum og þá gerum við það.

Varðandi síðan sóknaráætlanir landshluta er rétt að á liðnum árum hefur sá liður verið klúðurslegur í fjárlögum. Engu að síður hafa 100 millj. kr. farið til þess liðar og var gert í fyrra. Núna erum við að bæta 45 millj. kr. í þann lið þannig að hann verður 145 millj. kr. og hækkar þá umtalsvert í prósentum talið, upphæðin hækkar kannski ekki svakalega mikið en við erum þó sannarlega að bæta þar í. Eins og við þekkjum var tímabundið einskiptisframlag í fjárlögum vegna ársins 2015. Ef það heldur ekki áfram ótímabundið inn í framtíðina þarf að taka það aftur út í þessum fjárlögum og er verið að gera það.

Varðandi 2 millj. kr. framlag til Rannsóknarstöðvarinnar Rifs get ég ekki svarað þingmanninum nákvæmlega af hverju það er, en ég býst við að það tengist því að verkefnið tengist verkefninu Brothættar byggðir og eru menn farnir að nýta þá fjármuni sem við höfum haft hjá Byggðastofnun til einhverra verkefna. Ég vænti þess að það geti þá nýst þar án þess að ég þekki það. Ég ætla því ekki að fullyrða neitt um það úr þessum ræðustól án þess að kanna það.