145. löggjafarþing — 4. fundur,  11. sept. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[17:33]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svörin, þar á meðal þetta síðasta. Mér þykir vænt um að hæstv. ráðherra hyggst kanna það hvort þessi texti greinargerðar fjárlagafrumvarpsins sé sjálfkrafa ávísun á að verkefnið með Rannsóknastöðina Rif falli niður. Ég þykist vera þokkalega læs á þetta, hvort sem ég les töflu á bls. 325 — jú, vissulega kemur fram að púllían í heild sinni, byggðaáætlun og sóknaráætlanir landshluta í einu lagi, fær aukningu úr 422 millj. kr. í 485 millj. kr., en svo les maður skýringartextann á bls. 328 og þá stendur þetta svona. Ég held að menn hefðu getað unni heimavinnuna sína aðeins betur og haft þetta á skiljanlegu máli, meira að segja fyrir fyrrverandi fjármálaráðherra, en það er það ekki. Það er engin leið að átta sig á því hvar þessi krónutöluaukning kemur fram þegar þetta er komið í einn lið í töflunni, byggðaáætlun og sóknaráætlanir landshluta.

Það er gott að heyra það sem er jákvætt í þessu, að verkefnið Brothættar byggðir haldi áfram og það sé 45 millj. kr. aukning í sóknaráætlanirnar, ef það er fyrirhuguð skipting á þessu. Ég fagna því.

Ég spurði hæstv. ráðherra um jöfnun flutningskostnaðar og eðli málsins samkvæmt komst hann ekki að með allt. Nú veit ég ekki hvort það er enn þá á verksviði iðnaðar- og viðskiptaráðherra, þó er mér nær að halda að það sé nú hjá byggðamálaráðherra því að verkefnið var flutt til Byggðastofnunar. Ég spyr: Hverju sætir að þetta er látið rýrna ár frá ári? Lagði af stað í 200 millj. kr., reyndar rúmum, og á að standa í 175 millj. kr., óbreytt milli ára, á árinu 2016.

Svo finnst mér að hæstv. byggðamálaráðherra ætti að eyða 20 sekúndum í lokin í að svara því hvort hann sé ánægður og sáttur við framlög til vegamála eins og þau eru fyrirhuguð í frumvarpinu. Ástandið á vegakerfi landsins er kannski eitt brýnasta byggðaúrlausnarefni Íslands (Forseti hringir.) í dag. Það rignir yfir okkur mótmælum yfir ástandinu, sérstaklega (Forseti hringir.) á malarvegakerfinu. Mér finnst að hæstv. byggðamálaráðherra megi gjarnan hafa skoðun á því.