145. löggjafarþing — 4. fundur,  11. sept. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[18:03]
Horfa

félags- og húsnæðismálaráðherra (Eygló Harðardóttir) (F):

Virðulegi forseti. Ég efast ekki um að hv. þingmaður mun fá gott tækifæri í vetur, fram að jólum, til að kynna sér hvernig staðið verður að stofnframlögunum þegar það frumvarp kemur fram. Við höfum verið að horfa til tillagna ASÍ, enda er þetta hluti af kjarasamningunum, ein af lykilforsendunum fyrir því að hér náðust mjög góðir samningar til fjögurra ára. Upplýsingar um tillögur ASÍ má meðal annars finna á vef verkefnisstjórnar um framtíðarskipan húsnæðismála og samvinnuhópsins sem hv. þingmaður átti sæti í. Þar er farið nákvæmlega í hvernig þetta er hugsað og það kemur einmitt mjög skýrt fram í yfirlýsingunni að hér er ekki aðeins verið að horfa á tekjulægsta hópinn heldur að tryggt verði að tveir lægstu tekjufimmtungarnir — þannig að fólk sem er á vinnumarkaði muni nú fyrst eiga möguleika á að komast inn í nýtt kerfi.

Ég vil líka ítreka, af því að ég náði ekki að segja það nógu skýrt í fyrri ræðu minni, að verið er að gera ákveðnar breytingar varðandi skattlagningu á leigutekjum þar sem verið er að hækka frítekjumarkið verulega. Hugsunin með því er að hvetja til þess að menn fari þá frekar í langtímaleigu og þar með aukist framboðið á leigumarkaðinum. Það er líka verið að huga að því hvernig við getum stutt leigjendur með hækkun á frítekjumörkum og grunnbótum núna í tveimur skrefum 2016 og 2017 í samræmi við yfirlýsinguna.

Það er alveg ljóst, og það kom fram í ræðu minni, að forgangsmálin hafa verið þessi; húsnæðismálin og síðan lífeyrisþegar og við höfum forgangsraðað þeim fjármunum sem við höfum haft innan okkar svigrúms í þessa málaflokka. Það breytir því ekki að við erum að sjálfsögðu að huga að öðrum málum sem heyra undir ráðuneytið og við höfum verið að skoða hvað hægt sé að gera hjá okkur til að stýra bifreiðamálunum þannig að við getum byrjað á þeim tillögum sem lágu fyrir varðandi þau. Síðan eru það forsendurnar varðandi NPA. Fjöldinn er óbreyttur og einnig má minna á að hér er verið að tala um prósentutölu af þeim kostnaði þannig að að sjálfsögðu taka 20% breytingu miðað við kostnaðinn sem er þar undir.