146. löggjafarþing — 4. fundur,  13. des. 2016.

störf þingsins.

[13:40]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (Vg):

Virðulegur forseti. Já, lönd sem standa sig best og lönd sem standa sig verst. Ég ætla að nýta þetta tækifæri til að vekja athygli á skýrslu sem Hagstofan gaf út í gær sem sýnir hið síðarnefnda, það er skýrslan Félagsvísar: Hagur og heilbrigðisþjónusta 2015. Skýrslan lýsir grafalvarlegri stöðu sem á fullt erindi inn í þá vinnu sem er í gangi í tengslum við fjárlög og raunar hvers kyns stefnumótun í velferðarmálum sem hér á sér stað.

Samkvæmt skýrslunni neituðu tæplega 8.000 manns sér um læknisþjónustu vegna kostnaðar árið 2015. Sama ár slepptu 25.000 fullorðnir Íslendingar því að fara til tannlæknis af sömu ástæðu. Í evrópskum samanburði er Ísland á topplista samkvæmt þessari skýrslu en við hljótum að vera sammála um að það sé topplisti sem við viljum ekki vera á.

Í þessu samhengi skiptir félagsleg staða fólks miklu máli. Hlutfall þeirra sem sleppa því að fara til tannlæknis er til að mynda tvöfalt hærra hjá þeim sem eru í lægsta tekjufimmtungi en þeim sem eru í meðaltalinu. Og hvað atvinnustöðu varðar er hlutfallið langhæst hjá atvinnulausum, einn af hverjum fjórum, þá hjá öðrum sem ekki eru á vinnumarkaði, eins og öryrkjum, námsmönnum og heimavinnandi. Hið sama gildir um læknisþjónustu þar sem um 10% kvenna og 7% karla komust ekki til læknis á síðasta ári. Kostnaður er fyrirstaða hjá 6% þeirra í lægsta tekjufimmtungi á móti 1% fólks í tekjuhæstu hópunum.

Forseti. Við erum ekki að tala um fólk sem verður að neita sér um einhvern glysvarning, heldur fólk sem hefur ekki efni á lífsnauðsynlegri þjónustu. Svona birtist ójöfnuður og fátækt í auðugu samfélagi og hér sést að kostnaðarþátttaka einstaklinga er allt of há í velferðarþjónustunni. Fjársvelt heilbrigðiskerfi heldur fólki frá því að leita til læknis. Sem löggjafi á tímum markmiðasettrar áætlanagerðar getum við sett okkur einfalt markmið: Að ná þessum tölum í núll.


Efnisorð er vísa í ræðuna