146. löggjafarþing — 4. fundur,  13. des. 2016.

störf þingsins.

[13:45]
Horfa

Eva Pandora Baldursdóttir (P):

Herra forseti. Það er mér mikill heiður að fá að ávarpa Alþingi sem hér er saman komið. Mig langar að fjalla um mál sem ég tel mjög brýnt að horfast í augu við, það er traust almennings til Alþingis. Ég tel að helstu ástæður þess laka trausts sem almenningur hefur á þinginu séu m.a. skortur á gagnsæi í ákvarðanatöku stjórnvalda sem og óformlegir en þó viðurkenndir starfshættir og framkoma þjóðkjörinna fulltrúa. Gagnsæi er auðveldlega hægt að auka með lagasetningum og breytingu á formlegum starfsháttum stjórnvalda en hinu er erfiðara að breyta. Það er vegna þess að ákveðin menning hefur skapast hér á þingi í áranna rás og orðin svo rótgróin að litið er á hana sem sjálfsagðan hlut. Fólk virðist vera fast í leikjum og stjórnmálaklækjum sem einkennast af tortryggni og þar af leiðandi er enginn tilbúinn í að stíga fyrsta skrefið og treysta öðrum. Hvernig getum við ætlast til þess að almenningur treysti okkur þegar við getum ekki einu sinni treyst hvert öðru?

Niðurstöður síðustu kosninga sýna að almenningur vill sjá breytt samstarf ólíkra flokka á þingi og hann vill sjá umbætur. Við erum hér 63 þingmenn sem þjóðin hefur kosið til að starfa í þágu þessara umbóta og ég trúi því að ef við störfum af heilindum, sanngirni, virðingu og með hagsmuni allra landsmanna að leiðarljósi þá muni okkur takast það verk að auka traust til þingsins.


Efnisorð er vísa í ræðuna