146. löggjafarþing — 4. fundur,  13. des. 2016.

dagskrá fundarins og fundur í fjárlaganefnd.

[14:03]
Horfa

Björt Ólafsdóttir (Bf):

Virðulegi forseti. Ég vil einmitt ræða fundarstjórn forseta. Ég verð að segja að það kom mér talsvert á óvart að fyrsti liður á dagskrá í dag væri störf þingsins. Það var vissulega mjög gott og gaman að heyra þær jómfrúrræður sem fluttar hafa verið hér af hv. þingmönnum. En það var skilningur minn og fleiri þingflokksformanna, heyri ég, að vegna þeirra aðstæðna sem nú væru uppi — að við værum með nokkur brýn mál til umræðu og vildum nýta tímann vel — ætluðum við ekki að fara í þennan lið og aðra liði sem við þingmenn höfum getað nýtt okkur hér heldur vinna í þeim málum sem fyrir liggja. Það kom mér á óvart, og öðrum þingflokksformönnum, að forseti hefði gert breytingar hér á án þess að láta vita. Ég heyrði þó, þegar ég fór að spyrjast fyrir, að forsætisnefnd hefði haft einhverjar fregnir af þessu.

Ég geri líka athugasemd við annað í fundarstjórn forseta en það er að fjárlaganefnd eigi að funda á meðan á þingfundi stendur hér í dag, sem ég hef ekki heyrt áður að hafi verið á dagskrá.