146. löggjafarþing — 4. fundur,  13. des. 2016.

Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins.

6. mál
[14:49]
Horfa

Kolbeinn Óttarsson Proppé (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að þakka hæstv. fjármálaráðherra Bjarna Benediktssyni fyrir framsöguna og einlægni, sem er til fyrirmyndar, þegar hann nefnir að hann sé á engan hátt viss um að allir verði sáttir við þetta. Mér finnst til fyrirmyndar að segja það hreint út. Það eru ákveðnir þættir í máli hæstv. fjármálaráðherra Bjarna Benediktssonar sem vekja upp spurningar hjá mér, t.d. þetta tal um að komið hafi verið til móts við sjónarmið opinberra starfsmanna að verulegu leyti. Mig langar að spyrja hæstv. fjármálaráðherra Bjarna Benediktsson að því hvort hann kannist ekki við það að sjónarmið opinberra starfsmanna hafi verið þau að samkomulagið sem var undirritað með bravúr á sínum tíma hafi gert ráð fyrir að lífeyrisþegar í A-deild héldu sínu, að réttindi þeirra yrðu varin gegn mögulegum sveiflum vegna lélegrar ávöxtunar og ekki kæmi til skerðingar. Það hafi ekki endilega verið bundið við 60 ár, eins og vissulega kemur fram í nýframlögðu frumvarpi en var, eins og ég skil það, ekki í því frumvarpi sem lagt var fram í haust.

Í samkomulaginu sem var undirritað segir, með leyfi forseta:

„… við jöfnun á tryggingafræðilegri stöðu og breytingar á réttindaávinnslu verði verðmæti núverandi sjóðfélaga sérstaklega tryggð.“

Hér er ekki talað um ávöxtun ef vel gengur eða mögulega skerðingu ef illa gengur. Hér ekkert verið að tala inn í framtíðina um að taka einhverja áhættu með skerðingu eða ekki, að annaðhvort græði fólk eða ekki. Hér er einfaldlega sagt berum orðum að réttindin núverandi sjóðfélaga verði tryggð. Ég finn því ekki stað í samkomulaginu að settar séu einhverjar hömlur á það. Kannast hæstv. fjármálaráðherra Bjarni Benediktsson við þessi sjónarmið opinberra starfsmanna? Telur hann að hann hafi komið til móts við þau?