146. löggjafarþing — 4. fundur,  13. des. 2016.

Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins.

6. mál
[15:00]
Horfa

Þorsteinn Víglundsson (V) (andsvar):

Forseti. Takk fyrir þetta hæstv. ráðherra. Varðandi fyrra áhyggjuefni mitt þá er þetta einmitt, sem ráðherra orðaði ágætlega, eilíft þrætuefni á vinnumarkaði. Ég held að það fáist aldrei niðurstaða í þennan meinta launamun, það er einmitt það sem ég óttast, að hann verði uppspretta áframhaldandi deilna og grafi undan þeim breyttu vinnubrögðum sem verið er að reyna að taka upp á vinnumarkaði. Þess vegna óttast ég þessa bókun talsvert en vona þó að úr þeim ótta mínum rætist ekki.

Hitt er einmitt kjarni máls að við jöfnun lífeyrisréttinda þá eru almennu sjóðirnir þannig uppsettir að þar verður að skerða réttindi ef lýðfræðileg þróun eða ávöxtun er ekki eins og gert var ráð fyrir og eignir sjóðsins standa ekki undir skuldbindingum. Þess vegna velti ég því bara fyrir mér enn og aftur: Er það þá rétt skilið hjá mér að það eigi ekki fyllilega við um A-deild með þessum breytingum, að jafnvel kunni að koma til einhvers viðbótarframlags eða (Forseti hringir.) jafnvel hækkandi iðgjalds í framtíðinni til þess að mæta því loforði sem þarna er veitt?