146. löggjafarþing — 4. fundur,  13. des. 2016.

kjararáð.

7. mál
[16:36]
Horfa

Flm. (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er út af fyrir sig sjálfsagt að taka það til skoðunar í þinglegri meðferð hvort þurfi eitthvað að herða upp á orðalaginu varðandi það að menn fylgi kjaraþróun í landinu. Mér finnst það hins vegar vera alveg augljóst að það er tilgangur laganna að ákvörðunum sem teknar eru af kjararáði fyrir þá sem undir það heyra er ætlað að endurspegla það sem er að gerast á vinnumarkaði að öðru leyti. Mér finnst hv. þingmaður vera að segja að kjararáði hafi mistekist í því hlutverki sínu. En hann gerir of lítið úr því sem ég hef rakið að þingið hefur áður gripið inn í ákvarðanir kjararáðs og undið ofan af þeim með mjög miklum afleiðingum fyrir alla þá sem þar eiga undir og m.a. höfðu dómarar látið reyna á sinn rétt í því efni og haft sigur.

Það er ekki hægt að segja sem svo að kjararáði sé eingöngu ætlað að líta til kjaraþróunar eða samninga sem gerðir hafa verið á einhverju tilteknu tímabili. Þetta er dálítið kjarninn í málflutningi mínum. Þingið er að skapa vandræði ítrekað með því að vera að skipta sér af ákvörðunum kjararáðs. Það er kjarnaatriði í mínum málflutningi. Það voru sköpuð vandræði þegar menn fóru inn í þessar ákvarðanir í hruninu og ég hef rakið að það kom aldrei fram í þeirri umræðu að draga ætti úr kjörum þeirra sem heyra undir ráðið borið saman við aðra hópa í þjóðfélaginu. Því var meira að segja haldið opnu að mögulega þyrfti að halda áfram í framtíðinni að lækka kjör þeirra sem heyrðu undir kjararáð vegna þess að menn voru svo svartsýnir. En það sem í reynd gerðist var að aðrir viðmiðunarhópar hækkuðu stanslaust í launum.

Nefndin fer svo bara yfir það í þinglegri meðferð hvort kjararáð hafi með einhverjum hætti farið fram úr launaþróun þegar horft er aftur í tímann. En það rifrildi er í raun og veru aldrei hægt að botna vegna þess að hver og einn velur sér viðmiðunarpunkt. Hver og einn finnur sinn viðmiðunarpunkt og segir: Ja, ef maður horfir á þetta frá 2012 þá er þetta svona. Hinn vill horfa á þetta frá 2009. Svo er einhver sem vill horfa á þetta frá 2011. (Forseti hringir.) Mín skoðun er sú að kjararáð þarf að hafa lögbundið skýrt hlutverk. Svo á að láta það í friði með sínar ákvarðanir.