148. löggjafarþing — 4. fundur,  16. des. 2017.

breyting á ýmsum lögum vegna fjárlaga 2018.

3. mál
[11:14]
Horfa

Inga Sæland (Flf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hæstv. fjármálaráðherra Bjarni Benediktsson talar hér um að ríkið muni auka greiðslur sínar um 1,1 milljarð við það að hækka frítekjumark á launatekjur eldri borgara í 100 þúsund krónur. Ég sagði í gær að ég væri ekki rosalega öflug í reikningi, en af hverju í veröldinni þarf ríkissjóður að greiða 1,1 milljarð aukalega í tekjur sem eldri borgarar afla sér? Það felst ekki í því, hæstv. fjármálaráðherra, að ríkið auki greiðslur heldur verður ríkið af þeim okursköttum sem það hirti af eldri borgurum sem unnu umfram það 25 þúsund króna frítekjumark á launagreiðslur sem þeir voru með heimild til að vinna sér inn samkvæmt síðustu og núgildandi lögum.

Hvað er sanngjarnt og hvað er réttlátt, eins og hæstv. fjármálaráðherra ýjaði að áðan? Hvað er gamalt og hvað er nýtt? Staðreyndin er sú að það eru krónurnar sem skipta hér máli. Hvort sem það er gamalt kerfi eða nýtt kerfi skiptir máli (Forseti hringir.) hvort fólk hefur í rauninni í sig og á og peninga á milli handanna til þess að framfleyta sér.