148. löggjafarþing — 4. fundur,  16. des. 2017.

breyting á ýmsum lögum vegna fjárlaga 2018.

3. mál
[12:23]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svarið og er alveg boðinn og búinn til þess að kynna mér þetta mál betur, sér í lagi þar sem ég er nú dottinn í efnahags- og viðskiptanefnd.

Ég er enn ósannfærður, ef ég segi alveg eins og er, vegna þess að þetta hljómar enn þá eins og eitthvert mat sem hafi verið gert á tiltekinni fjárfestingu og ríkið eigi að fara í fjárfestingu til þess að fjármagna sig. Vandinn við það að mínu mati er í fyrsta lagi sá að fjárfestingar á borð við þessar eru alltaf áhætta. Þegar við á þingi tökum ákvarðanir, hvort sem það er fyrir þjóðina eða fyrir ríkissjóð, hvernig sem við orðum það, þá erum við í raun og veru farin að taka að okkur hlutverk sem ég hreinlega treysti ekki stjórnmálamönnum fyrir, hvorki mér né öðrum, vegna þess að mér finnst það óeðlilegt hlutverk ríkissjóðs. Það er ekki vegna þess að mig skorti kjark, fyrir utan það að ég sé ekki enn þá hvers vegna hér þurfi kjark. Ég átta mig á því hvaða kjark þurfti eftir hrun, ég átta mig alveg á því með Icesave-deiluna og allt það. Það var mikið til spurning um kjark og dómgreind og heppni og ýmislegt fleira, en ég sé það ekki hér.

Hér sé ég aðeins eina spurningu: Er þetta skynsamleg ákvörðun eða ekki? Með hliðsjón af því að þetta er í eðli sínu áhættufjárfesting þá er ég mjög efins um hana. Ef hægt er að sýna fram á að þetta sé svo borðleggjandi frábær díll þá velti ég fyrir mér hvort við séum þá ekki að segja að í raun og veru ættu allir sem hafa færi á því að kaupa hlut í þessum banka. Erum við þá ekki að segja það?

Ég velti fyrir mér hvort það sé umræðuefni sem við eigum að vera með hér í pontu. Það er bara hlutverk ríkisins sem mér finnst erfitt við þetta. Að því sögðu þá er alltaf „en“ og „nema“. Ég er ekki í sjálfu sér á móti því að ríkið eigi einn banka út af samkeppnisaðstæðum sem eru hér á landi fyrst og fremst. Það er ekkert heilagt í þessu að mínu mati. En eins og ég segi ég er enn þá ósannfærður en hlakka til að ræða þetta betur í framtíðinni við hv. þingmann.