151. löggjafarþing — 4. fundur,  6. okt. 2020.

fjármálaáætlun 2021--2025.

2. mál
[12:04]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P):

Forseti. Hér er stefna stjórnvalda til næstu ára lögð fram en um grunninn að því hvernig setja skuli þá stefnu fram er fjallað í lögum um opinber fjármál. Mjög margar ástæður eru fyrir því að þau lög eru sett upp eins og þau eru. Þar er fjallað um að það skuli vera forgangsraðaður verkefnalisti, það er eitt af lykilatriðunum, til að þingið geti tekið ákvörðun og viti af hverju einu verkefni er forgangsraðað umfram annað. Það er til þess að taka burt pólitíkina og kjördæmapotið sem við höfum upplifað aftur og aftur á undanförnum áratugum og sérstaklega rétt fyrir kosningar. Það á t.d. við þegar það er ekki útskýrt af hverju Vaðlaheiðargöng voru sett á dagskrá og toguð langt fram fyrir allar aðrar framkvæmdir þrátt fyrir að margar aðrar séu mikilvægari.

Við erum nokkuð vel stödd í samgöngum þar sem þar er tiltölulega vel forgangsraðaður listi en ekki í neinum öðrum málaflokki. Við getum tekið samgönguáætlun sem nokkuð góða fyrirmynd í því hvernig þetta þyrfti allt að vera í heilu lagi. Það á að vera kostnaðar- og ábatagreining til að grípa til nákvæmlega í því ástandi sem við erum í núna. Þegar harðnar á dalnum eigum við á auðveldan hátt að geta litið á listann og séð ábatasöm verkefni sem við getum bætt í til að ná þeim árangri sem þarf að ná miðað við aðstæður. Nú þurfum við verkefni sem skapa atvinnu og líklega varanlega af því að ekki eru endilega horfur á því að við náum til baka þeim störfum sem eru að hverfa í þessari niðursveiflu, a.m.k. ekki fyrr en 2026. Stefna stjórnvalda er hins vegar sú að reyna að ná því árið 2023. Það eru þrjú ár í það þannig að við þurfum að bíða þangað til við fáum þau störf. En einhverra hluta vegna þá kemur ekkert fram í þessari áætlun um það hvernig fjölga eigi ferðamönnum upp í 2 milljónir aftur 2023 í stað 2026. Það er engin sérstök áætlun eða stefna um það. Það er bara gefið að ef ekki komi 2 milljónir 2023 þurfi að fara í niðurskurð og alls konar vesen í staðinn fyrir að geta haldið áfram með sömu stefnu.

Ég spurði fjármálaráðherra einmitt um þennan skort á gagnsæi hér áðan og af hverju ekki væri farið eftir lögunum eins og þau eru sett upp. Ráðherra fletti upp í fjármálaáætlun og tók dæmi um verkefni sem eru listuð upp, og gott og blessað með það, og þá mælikvarða sem þar eru settir. En þar vantar einmitt kostnaðar- og ábatagreininguna, það vantar að segja af hverju ákveðið verkefni skilar þeim árangri sem hafður er til viðmiðunar en alla jafna, það er minna um það núna, er enn verið að móta mælikvarða. Það er mjög algengt í þessari fjármálaáætlun að ekki sé einu sinni vitað hvaða árangri stefnt er að. Ég drep t.d. niður á bls. 207 þar sem talað er um að útgjöld fyrirtækja til rannsókna og þróunar sem hlutfall af vergri landsframleiðslu eigi að hækka úr 1,35% 2019 upp í 1,6% árið 2025. Þetta er mjög skýrt markmið og ég myndi segja að það væri mjög augljóst að sjá einmitt hvernig það að hækka nýsköpunarþakið myndi ná þessu markmiði. Það er tiltölulega vel útskýrt. En á heildina litið sjáum við t.d. ekki hvernig við náum mælikvarðanum sem er ofar, að við ætlum að ná meðal 20 efstu ríkja í Global Innovation Index, eins og stendur þar. Það er ekkert sem segir hvernig við náum því markmiði nema kannski fyrirtækin nái því fyrir okkur með því að við hækkum nýsköpunarþakið hjá þeim. Á sama tíma bendir allt til þess að þegar við hækkuðum þakið hafi það aðallega haft áhrif á fá stórfyrirtæki, hæstu upphæðirnar. Það eru sem sagt fá stórfyrirtæki sem eiga að ná markmiðum stjórnvalda. Mér finnst það pínulítið öfugsnúið miðað við hvaða hlutverki stefna ríkisins ætti að gegna, hver stefna ríkisins ætti að vera, að miða einmitt að þeim sem eru að byrja. Við ættum ekki að beina styrkjum að þeim sem eru orðnir fastir og stórir á markaði heldur ættum við einmitt að beina aðstoðinni til þeirra sem eru að byrja.

Þetta er vandamálið sem ég sé í stefnu stjórnvalda. Það fer ekki saman hver markmiðin eru, hverjar aðgerðirnar eru og hver áhrifin eru í heildstæðu samhengi. Við erum ekki með fjölskipað stjórnvald, hver ráðherra ber ábyrgð á eigin málefnasviði, setur markmið og stefnu o.s.frv., og það vantar að toga allar þessar stefnur og áætlanir upp og setja einhvers konar heildstæða áætlun um það hvernig þeim markmiðum sem við þurfum að ná verður best náð. Það er ekki gert. Handahófskenndar aðgerðir eru tíndar saman án þess að fyrir liggi heildstæð saga um það af hverju það er til framfara, fyrir utan það sem fólki finnst vera augljóst. Fólki finnst augljóst að það að hækka þak nýsköpunarstyrkja muni skila árangri. Það er rétt samkvæmt öllum upplýsingum sem við höfum en við höfum ekki þær upplýsingar hvort hægt sé að ná meiri árangri með því en með öðrum aðgerðum, t.d. með því að styðja við grasrót nýsköpunar. Þegar við höfum þá tvo valkosti hlið við hlið þá á ríkisstjórnin að útskýra það fyrir okkur og þjóðinni af hverju betra er að velja annan möguleikann frekar en hinn, af hverju betra er að setja miklu meiri pening til þeirra fyrirtækja sem eru þegar stöndug á markaði en til þeirra sem eru að byrja og eru að búa til framtíðarskipulagið. Við búum í heimi sem þróast mjög hratt og þar skiptir nýliðun gríðarlega miklu máli. Þeir sem eru að koma nýir inn með nýju hugmyndirnar sjá þá stöðnun sem verið hefur í kerfinu og eru með hugmyndir um það hvernig eigi að gera betur, hvernig eigi að gera hlutina öðruvísi. Það er eiginleiki allra kerfa að viðhalda sjálfum sér og það skapar ákveðna stöðnun. Við verðum að hvetja til þess utan frá, með því t.d. að styrkja grasrótina í nýsköpun, að menn skapi ákveðið mótvægi. Þetta er allt of stuttur tími til að fjalla um þessa heild, þetta er ekki alveg nógu gott fyrirkomulag sem við höfum hér.

Mig langar til að fjalla um tvær fullyrðingar sem þarf að útskýra betur í fjármálaáætluninni. Það er annars vegar fullyrt að verðmætasköpun atvinnulífsins sé uppspretta tekjuöflunar hins opinbera. Sjáum til hvort ég hef tíma í þær báðar en ég byrja á þessari. Það er ekki nauðsynlega rétt að atvinnulífið sé uppspretta tekjuöflunar hins opinbera. Það getur verið nákvæmlega jafn rétt að hið opinbera bókstaflega búi til pening með útgjöldum sínum og þurrki út pening með sköttum og gjöldum. Útgjöld og skattar hins opinbera eru hagstjórnartæki sem eru ekki notuð til að ná jafnvægi í ríkisrekstrinum heldur til að ná jafnvægi í hagkerfinu. Á þessu er mikilvægur munur því að hann breytir því í grundvallaratriðum hvernig við beitum þeim hagstjórnartækjum sem hið opinbera hefur. Halli ríkissjóðs er t.d. ekki vandamál svo lengi sem verðbólgan er ekki vandamál. Stærra vandamál en halli ríkissjóðs væri t.d. atvinnuleysi því að það þýðir að það vantar virkni í samfélaginu. Það þýðir halla fyrir hagkerfið og þá bæði efnahagslegu og félagslegu kerfin. Þetta er eitthvað sem mér finnst vanta í stefnu stjórnvalda. Það er þessi atvinnustefna. Lagðar eru fram margar hugmyndir um aðgerðir í vegamálum og ýmsu svoleiðis og fullt af nýjum framkvæmdum en það er engin greining á því hvernig það kemur til með að hafa áhrif á atvinnuleysi, því að allar þessar aðgerðir eru tímabundnar, þær hverfa síðan. Framlög til samgöngumála minnka um 18 milljarða frá 2021 út áætlunartímabilið. Þar hverfa störf. Hvaða störf koma í staðinn? Við sjáum það ekki. Við sjáum 200 í þekkingargeiranum, 800 út tímabilið en ekkert annað, ekkert til að koma til móts við mesta vandann sem steðjar að okkur núna og það er atvinnuleysi.