151. löggjafarþing — 4. fundur,  6. okt. 2020.

fjármálaáætlun 2021--2025.

2. mál
[14:58]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Það er alveg hárrétt ábending hjá hv. þingmanni að við verðum að leggja okkur öll fram um að tryggja að þjóðhagsspáin okkar styðjist við bestu mögulegu aðferðir og fáanleg gögn. Við þurfum að gera okkur grein fyrir því að þegar við spáum fyrir um tekju- og gjaldahlið ríkisins hvílir það á forsendum sem hafa verið reiknaðar og eru ekki fullkomnar. Meðal annars af þeirri ástæðu erum við með í fjármálaáætlun núna bjartsýnisspá og svartsýnisspá. Við erum að reyna að dýpka umræðuna um nákvæmlega þá þætti. Það er alltaf það sama sem maður sér, sama á hvaða hlið maður veltir þessum teningi, upp úr því kemur ávallt að hagvöxtur er ráðandi um það hvernig úr öllu mun spilast.

Það er hægt að velta því fyrir sér hvort það sé líklegt að hagvöxtur verði þetta mikið meiri á næsta ári eða þarnæsta eins og hv. þingmaður vék að. En ég held að sagan sýni að íslenska hagkerfið er gríðarlega sveigjanlegt. Við erum opið hagkerfi. Við höfum farið í gegnum ofboðslegt vaxtartímabil á undanförnum tíu árum. Það gat enginn séð fyrir þann mikla vöxt í komu ferðamanna sem varð. Við sáum það í þeirri hagsveiflu sem er núna að ljúka, og þeirri hagsveiflu sem við vorum stödd í þegar við fórum í stærstu virkjunarframkvæmdir sem við höfum ráðist í fyrir bráðum 20 árum síðan, að vinnumarkaðurinn er gríðarlega sveigjanlegur á Íslandi. Við gátum þannig komið í veg fyrir þá þenslu sem flest módel hefðu gert ráð fyrir með því að sækja erlent vinnuafl til landsins.

Ég held að það sé ekki rétt að nota orðið rusl í samhengi við hagspár Hagstofunnar. Ég held að það sé rétt aðferðafræði hjá okkur að láta fjármálaráðherra ekki kokka upp sína eigin spá, óháða áliti utanaðkomandi sérfræðinga, heldur að honum sé gert að byggja á hagstofuspánni. (Forseti hringir.) Það er hægt að ræða hana fram og til baka. (Forseti hringir.) En þetta er það form sem ég held að sé líklegast til að skila okkur árangri.